13.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 906 í B-deild Alþingistíðinda. (1352)

72. mál, fyrirspurn um innflutning áfengis

Fyrirspyrjandi (Jón Ólafsson):

Herra forseti! Mér þótti undarlegt og óvænt að heyra dagskrá hv. þm. Ak. (G. G.), er álítur svar hæstv. ráðherra (H. H.) fullnægjandi. Mér finst það algerlega ófullnægjandi, þrátt fyrir það þótt hann hafi þegar fengið tvö venjuleg „notarial“-vottorð frá Reykjavík og Akureyri, sem sjaldan bregðast honum þegar hann þarf þeirra með.

Um landhelgina er það að segja, að annaðhvort liggur hún á löggjafarsvæðinu eða ekki. Liggi hún á löggjafarsvæðinu, þá er fyrirspurnin sjálfsagt réttmæt, en geri hún það ekki, þá fara bæði bannlög og tolllög vor og fleiri lög út fyrir löggjafarsvæði vort. Þá yrðu eigi bannaðar neinar veiðar í landhelgi t. d.

Undarlegt virðist mér það vera, að þessi venja sé svona gömul, því hvernig getur hún verið eldri en bæði aðflutningsbannlögin og vínfangalögin?

Þegar bannlögin koma í gildi, þá mun fjölga útlendum skipum, sem flytja áfengi til annara. Mun þá koma stór gloppa í aðflutningsbannlögin, þegar þannig má flytja hingað vínföng alt árið um kring.

Eg er algerlega ósamdóma dagskrá hv. þm. Ak. (G. G.), því að þingið álíti svar ráðherra (H. H.) fullnægjandi, sem einmitt er ýmist í austur eða vestur. Tilgangur fyrirspurnarinnar er ekki sá, að vilja fella dóm á gerðir fyrverandi ráðherra (Kr. J.), heldur hinn að knýja þing og ráðherra til að sporna á móti því að aðflutningsbannlögin séu brotin.