21.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 951 í B-deild Alþingistíðinda. (1371)

82. mál, viðskiptaráðunauturinn

Ráðherrann (H. H.):

Eg vil að eins taka það fram, að mér væri kært að fyrirmæli þau, sem hv. deild vill leggja fyrir stjórnina séu ljós og skýr. Þessi dagskrá háttv. þingm. Rvk. segir eiginlega ekki neitt. Það geta verið skiftar skoðanir um það, hvað orðin „samkvæmt erindisbréfinu“ þýða. Það heitir „erindisbréf fyrir viðskiftaráðunautinn erlendis“. Þetta mætti skilja svo, að erindisbréfið eigi að eins við framkomu hans þegar hann er erlendis en ekki hér heima. Í bréfinu er sagt að ætlast sé til að viðskiftaráðunauturinn hafist við í þeim löndum, sem landstjórnin tiltekur, og að þau lönd muni vera Norðurlönd, Þýzkaland og England. Er Ísland talið hér meðal Norðurlanda, eða á þetta að skiljast svo, sem hann megi alls ekki vera hér heima? Mér væri kært að fá beinar upplýsingar frá deildinni um þessi atriði, og annað sem hún ætlast til að stjórnin taki til greina, ef ætlast er til að breytt sé þeirri venju, sem fylgt hefir verið.