21.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 954 í B-deild Alþingistíðinda. (1373)

82. mál, viðskiptaráðunauturinn

Jón Ólafsson:

Það sem knýr mig til að standa upp aftur, er ræða háttv. þm. Dal. (B. J.). Maður skyldi búast við að hann hefði reynt að bera fram einhverjar varnir gegn þeim útásetningum, sem fram hafa komið, en í stað þess fer hann í kringum þær eins og köttur kringum heitan graut, með útúrsnúningum og orðhengilskap. Það eru bein og slétt orð að laun eru laun og ferðakostnaður er ferðakostnaður; hann á að lifa af laununum og ferðast fyrir ferðakostnaðinn. Það er sannað af hv. þm. Sfjk. (V. G.) að hann hefir of treiknað sér alt sem hann hefir kostað til lífsins, sem ferðakostnað. Þessu er ómótmælt af hans hálfu; hann lætur því ósvarað, en kemur með útúrsnúning um óviðkomandi mál Hann sagði, að ráðherra gæfi upp í ferðakostnaðar reikningum sínum meira en þann kostnað sem hann hefði af ferðunum. En þetta er alt annað mál og gersamlega ósambærilegt við hitt, því að ráðherra á að lögum að fá endurgoldinn kostnað, bœði af ferð og dvöl.

Hv. þm. N.-Ísf. (Sk. Th.) sagði, að því hefði verið haldið fram, að enginn árangur hefði enn orðið af starfi viðskiftaráðunautsins, en engin dæmi hefðu verið nefnd því til sönnunar. En hvernig er hægt að nefna dæmi þess að enginn árangur hafi orðið? Það var hann, sem átti að koma með dæmi. Hann átti að sýna afrek viðskiftaráðunautsins með dæmum — ef þau eru nokkur til. Hann er svo lögfróður og rökvís maður, að hann veit, að sönnunarbyrgðin hvílir hér á honum. En hann brestur víst sannanirnar. (Skúli Thoroddsen: Þingmanninn minnir víst, að hann sé að tala fyrir lesendum „Reykjavíkur“!). Ó nei, eg veit vel, að nú er eg að tala við „»Rúðu“-meistarann“!

Það er ekki rétt, að minni hl. á þingi 1909 hafi verið mótfallinn fjárveitingunni til viðskiftaráðunautsins, þvert á móti. Báðir flokkar voru sammála um að veita fé til verslunarráðunauts. En það var ekki tilætlun heimastjórnarflokksins, að hann yrði pólitískur agitator í útlöndum; og þegar það seinna kom í ljós, að það hafði frá byrjun verið tilætlan sjálfstæðisflokksins, þá hlutu heimastjórnarmenn að mótmæla.

Hv. þm. gerði lítið úr þeim göllum á skýrslum viðskiftaráðunautsins til stjórnarráðsins, að þær hefðu verið ódagsettar, óstaðsettar og óundirskrifaðar. Flestir mundu þó kunna því betur, að það sæist hvar og hvenær og af hverjum slíkar skýrslur eru skrifaðar. Og þó bréf fylgi með skýrslunni, þá þarf þó að vera eitthvað í henni sem sýnir, að hún sé skýrslan sem bréfið á við.

Eg vona að þegar háttv. þm. N.-Ísf. (Sk. Th.) kemur með skýrsluna um Rúðuför sína, þá sé hún að minsta kosti dagsett, staðsett, undirskrifuð og yfirskrifuð.

Hv. þm. sagði að það væri glamurorð að kalla blað háttv. þm. Dal. (B. J.) æsingarit, og eins mætti kalla Eimreiðina því nafni. En sá er munurinn, að hún er ekki gefin út af manni, sem á að vera milligöngumaður milli Íslands og útlanda, svo að það mundi ekki spilla áliti landsins þó hún væri æsingarit — sem hún alls ekki er.

Það er undarlegt, að nokkur skuli leyfa sér að tala um það sem eitthvað ótilhlýðilegt, að eg vil sporna við því, að svo miklu fé verði kastað í sjóinn.

Eg hefi breytt fyrri hluta br.till. minnar þannig, að hún getur einnig átt við þá rökstuddu dagskrá er seinna kom fram.

Það lítur svo út, sem viðskiftaráðunauturinn hafi álitið það helgustu skyldu sína að eta og drekka út 4.000 kr. auk launa sinna og kalla það ferðakostnað, en það er þetta, sem eg vildi koma í veg fyrir framvegis með br.till. minni; eg vildi láta hann gefa skýrzlu um starfsemi sína fram til þessa, því að með því næðist tvennur góður tilgangur. Í fyrsta lagi sæist hver árangur sýnilegur af starfi hans er orðinn, en ekki hvað hann hafi ráðgert, spjallað og haft í hyggju að gera, heldur sýnilegur árangur sem allir geta séð og þreifað á. Í öðru lagi sæti hann þá hér heima, það sem eftir er starfstíma hans og væri oss þá ekki til skaða og skammar erlendis. Eg get ekki stilt mig um að minna á það, hversu einn fyndinn maður komst svo heppilega að orði í fyrra um starfsemi viðskiftaráðunautsins; hann sagði, að hvert það land, sem viðskiftaráðunauturinn hefði komið í á embættisferðum sínum, væri bólusett gegn öllum viðskiftum við Ísland og öllu íslenzku lánstrausti!