09.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 61 í B-deild Alþingistíðinda. (525)

10. mál, ritsíma- og talsímakerfi Íslands

Eggert Pálsson:

Br.till. mínar á þgskj. 143 knýja mig til að taka til máls og fara um þær nokkrum orðum þeim til stuðnings. Tillögurnar eru í 4 stafliðum, en eins og allir sjá eru þær í raun og veru ekki nema 2, því að 2. og 4. stafliðurinn er bein afleiðing af þeim fyrsta.

Háttv. framsm. (J. M.) fór nú mjúkum höndum um 1. br.till. mína, þó að nefndin í heild sinni hafi ekki viljað fallast á hana, og játaði að hún hefði við mikil rök að styðjast. Enda held eg að allir hljóti að kannast við að svo sé. Br.till. fer fram á það, að allur síminn frá Reykjavík til Vestmanneyja verði 1. flokks sími. Held eg að allir hljóti að sjá, að það er í eðli sínu rétt. Þegar rætt var um Vestmannaeyjasímann á síðasta þingi, kom flestum saman um, að hann mundi verða einhver arðsamasta línan, og hefir nú reynslan fært fullar sönnur á, að þær getgátur hafa haft við rök að styðjast, enda ætlar nú landið, eða þingið fyrir landsins hönd, að kaupa þann síma fullu verði. Þegar litið er til þessa, er ekkert eðlilegra en að þessi arðsama lína verði 1. flokks lína. Mikið af línu þessari er nú þegar í 1. flokki, sem sé héðan úr Reykjavík og austur að Ölfusárbrú, og sama má segja um línuna frá Garðsauka og alla leið í Vestmannaeyjar að hún er í reyndinni 1. flokks lína, að því leyti, að ekkert er lagt til hennar frá hlutaðeigandi sveitarfélögunum. Er þá ekki um annað að ræða en kaflann frá Garðsauka og að Ölfusárbrú. Get eg ekki annað séð, en það sé hálf afkáralegt að skera þann part úr línunni og setja hann í 2. flokk, en hafa báða endana í 1. flokki eða sama sem 1. flokki. Að telja einungis hlutann úr Reykjavík að Ölfusá í 1. flokki tekur sig mjög svo einkennilega út. Mundi sá, er læsi lögin og ekki þekti til, álíta, að Ölfusá væri einhver stór staður, sem sérstaklega arðvænlegt væri að leggja síma til, en að það væri aftur á móti minni arðsvon að símanum þaðan út í Vestmannaeyjar.

Þegar frv. var í öndverðu samið fyrir alt að 2 árum, var eðlilegt að þessu væri þannig hagað, þar sem ætlast var til, að tilllag til línunnar allrar, ekki aðeins frá Ölvesá að Garðsauka, heldur og frá Garðsauka til Vestmanneyja, fengist frá viðkomandi héruðum. En nú hefir síminn frá Garðsauka til Vestmannaeyja verið lagður fyrir einstakra manna fé og síðan keyptur fullu verði af landsjóði. Eftir þeirri rás viðburðanna ætti því frv. nú að sníðast. Hygg eg því að hver sem vill líta hlutdrægnislaust á þetta mál, verði að álíta eðlilegast, að öll línan teljist til 1. flokks.

Að vísu er hér sá hængur á, skoðað frá landssjóðsins sjónarmiði, og sem eg býst við að sumir þingmenn kunni að blína nokkuð fast á, að tillagið sem Rangárvallasýsla hefir lagt fram, muni við slíka breytingu tapast. Það er býsna sennilegt að svo verði. Eg tel sennilegt og sjálfsagt, að farið verði fram á, að það sem Rangárvallasýsla hefir lagt til álmunnar, 4 þús. kr., verði eftir gefið og það fáist. En á hina hliðina geri eg ráð fyrir, að peningalegi hagnaðurinn fyrir Rangárvallasýslu verði ekki svo mikill fyrir það, sem nemi 4 þús. kr., heldur komi sýslan til að svara út aftur af þessari upphæð til Víkur-símans, svo að tillagið til hans frá héruðunum gæti staðið eins og er í frv., 5 þús. kr., en þyrfti ekki að lækka, eins og nefndin leggur til, niður í 4. þús. kr. — Þessum 4 þús. kr., sem samkv. nefndarálitinu er ætlast til að komi frá kjördæmunum til Víkur-símans, mundi Vestur-Skaftafellssýslu einni verða um megn að rísa undir. En hins vegar víst, að Rangárvallasýsla leggur ekkert til hans, ef hún verður ekki leyst frá tillaginu til símans austur að Garðsauka. En verði hún frá því leyst, mun hún ábyggilega taka á sig fullkomlega sinn hluta af tillagi til síma austur í Vík. Svo að ef þessi brt. mín nær fram að ganga, þá er það ekki síður Vestur-Skaftafellssýsla en Rangárvallasýsla, sem hefir af því not, og flýtir fyrir að Víkursíminn geti komist á, sem hætt er við að lengi gæti dregist að öðrum kosti vegna vantandi tillags. Eg vona nú, að eins og hv. frsm. (J. M.) tók mjúkum höndum á br.till. minni, svo geri einnig deildin hið sama, þegar hún hefir athugað málið, sem eg þykist vita, að hún muni þegar hafa gert.

Hvað snertir hina brt. mína, um að bæta inn símalinu frá Eystri-Garðsauka inn að Hlíðarenda, í upptalninguna í 4. gr., þá stafar hún af því, að eg lít svo á, að sú upptalning muni hafa nokkra þýðingu í framtíðinni, þó að háttv. frsm. neitaði því. Eg held að menn mundu telja sig bundna við upptalninguna og láta þá staði, sem þar eru nefndir, ganga fyrir öðrum, að öllu öðru jöfnu. Og ef það yrði tilfellið, þá væri það bæði ósanngjarnt og óeðlilegt, að Fljótshlíð yrði eini hreppurinn í sýslunni, sem ekki hefði símasamband, þegar búið væri að leggja síma þá, sem nefndir eru í 4. gr. Þaðan yrði þá að sækja símasamband út úr hreppnum alla leið út að Eystri-Garðsauka, þegar komið væri símasamband á í öllum öðrum hreppum sýslunnar. Væri það mikið misrétti milli hreppanna innbyrðis, og í mesta máta ósanngjarnt, sérstaklega þegar tillit er tekið til þess, að Fljótshlíð er einhver þéttbygðasta og fegursta sveit þessa lands. Auk þess liggur hún illa við samgöngum, þar sem hún liggur öll á eina hlið. Frá instu bæjum í Fljótshlíð og að Eystri-Garðsauka er ca. 35—40 km., eða álíka leið og héðan upp að Kolviðarhól. Þá má og taka það fram, að Fljótshlíð er ekki eingöngu ein hin fegursta heldur og söguríkasta sveit þessa lands. Fyrir því er það títt, að útlendingar leggja þangað leiðir sínar, og kemur það oft fyrir að þeir leggja ekki minna kapp á að komast þangað heldur en til Þingvalla eða Geysis. Mundi útlendum ferðamönnum þykja einkar þægilegt, að hafa síma á Hlíðarenda, og geta sent þaðan skeyti hvert á land sem vera skyldi. En þó að eg telji það bæði sanngjarnt og á fullum rökum bygt, að þessi brt. mín verði samþykt, þá legg eg þó engan veginn aðaláherzluna á hana, heldur hina, sem eg áður nefndi, því hana tel eg enn þá meira um verða. En annars skal eg leyfa mér að vænta að báðar þessar brt. mínar fái sem beztan byr við atkvæðagreiðsluna í þessari hv. deild, sem eðlilegar og að öllu leyti sanngjarnar.