09.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 66 í B-deild Alþingistíðinda. (527)

10. mál, ritsíma- og talsímakerfi Íslands

Matthías Ólafsson:

Herra forseti! Hv. þm. Snæf. (H. St.) hefir talað nokkur orð til mín, útaf því sem eg mintist á Hellissand. Það er langt frá því, að eg beri nokkurn kala til þeirrar línu, sem farið er fram á að leggja þangað. En eg tek ekki Hellissand fram yfir Súgandafjörð og tel minni von um tekjur af símalínu þangað, heldur en af línu til Súgandafjarðar. Þó að fleira fólk kunni að vera á Hellissandi, er þar margfalt minni umsetning. Verzlanirnar þar eru útibú frá Ólafsvík, og eg held Stykkishólmi líka. (Halldór Steinsson: Ekki rétt!) Sem sagt, eg vil ekki leggja fjöður í veginn fyrir það, að sími fáist til Hellissands, og það er langt frá því að eg vilji lofa Súgandafjörð með því að lasta Hellissand. En þó er eg á því, að Hellissandur hefði setið enn í 3. fl., ef hv. þm. Snæf. (H. St.) hefði ekki átt sæti í nefndinni. Það er mikið áhugamál hjá okkur heima fyrir, að fá 5 síma til Súgandafjarðar, og ef það verður ekki tekið til greina, þá neyðast héraðsbúar til að leggja sjálfir á sig kostnaðinn. Mun þá fara svo, að landið kaupi línurnar síðar meir, þegar það hefir komið í ljós að hún ber sig. Eg er hv. þm. Snæf. (H. St.) þakklátur fyrir landafræðiskensluna. Það er langt síðan að eg las þá fræðigrein, en þá minnir mig, að Ólafsvík væri talin til þess hrepps, er eg sagði. Eg hefi aldrei lagt mig sérstaklega eftir landafræðinni þarna í kringum Jökul, eg hefi heldur reynt að rýna í sitthvað annað. En framvegis skal eg reyna að gera mér far um að fylgjast með ríkjaskipuninni á þessum stöðum, svo eg verði mér ekki til minkunar aftur.