20.08.1912
Efri deild: 29. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 72 í B-deild Alþingistíðinda. (77)

10. mál, ritsíma- og talsímakerfi Íslands

Þórarinn Jónsson:

Jeg hef skrifað undir nefndarálitið með fyrirvara, og sá fyrirvari er talsvert víðtækari en svo, að hann eigi við nokkurt sjerstakt atriði, því það er sem sje skoðun mín, að frumv. ætti helzt ekki að ganga í gegnum þingið að þessu sinni. Þær ástæður, sem fram eru teknar með því, eru aðallega þær, að þetta símamál sje þar með komið í fast og ákveðið horf, og símastjórnin hafi þá vissa og ákveðna leið að fara eftir og símalagningin verði þá gerð eftir þeim reglum, sem frumv. ákveður. En bæði er það nú, að upptalning af hinum upptöldu símum í frumv. er alls ekki tæmandi, og á hina hliðina, að símastjórnin mundi geta fylgt sömu reglum fyrir það, sem hún hefur skapað sjer. Enda get jeg þess líka til, að jafnvel þegar á næsta þingi muni verða gerð breyting á þeirri röð, sem frumv. gerir ráð fyrir að fylgt verði.

Og jeg fyrir mitt leyti hefði óskað, að málið hefði verið alt öðruvísi undirbúið til næsta þings og á alt annan hátt, því það fyrirkomulag, sem nú er á símamálum, álít jeg óheppilegt og órjettlátt, sem þegar er farið að vekja óánægju, og mun því að því reka, að óumflýjanlegt verði að breyta því. Það sem jeg vil, er að landssjóður taki að sjer alla starfsrækslu símans, eins og hann nú kostar öll póstmál landsins, því það er auðsætt, að mikið misrjetti kemur fram í því fyrirkomulagi, sem nú er, þar sem það er að eins tilviljun ein, sem ræður því, hvort hjeruðin eða sveitirnar þurfa að halda símanum fjárhagslega uppi, bara eftir því, hvar þau eru í landinu. Þau, sem eru svo heppin, að 1. flokks línur liggi yfir þau, þurfa ekkert að borga, en hin þurfa að leggja mikið fram.

Jeg get ekki fallizt á, að það sje rjett, að aukalínurnar lifi á aðallínunum, heldur sjeu aukalínurnar jafnnauðsynlegar til þess, að auka framleiðsluna eða tekjurnar, færa nýja og aukna næringu í heildina.

Hvað það snertir, að starfsræksla á símastöðvunum yrði dýrari, ef landssjóður þyrfti að kosta hana, þá sýnist mega vel fyrir það byggja, og mætti fá ábyggilega áætlun um það, hve mikið slíkt mundi kosta landssjóðinn.

Þegar safnað væri starfsrækslukostnaði út um landið eins og hann er nú, og hann væri borinn saman við tekjur hverrar stöðvar, þá mætti sjá, hve mikið hundraðsgjald af tekjum hverrar stöðvar starfsrækslukostnaðurinn er, og miða við það, þannig að landssjóður greiddi ákveðið hundraðsgjald af tekjum stöðvanna til starfsrækslu þeirra; með tilliti til þess, hvað þær hafa gefið af sjer að meðaltali áður, þó aldrei yfir einhverja vissa upphæð, en hrykki það ekki til, yrðu hlutaðeigandi sveitarfjelög að borga það, sem á vantaði. Og með það fyrir augum ætti að gefa kost á nýjum stöðvum. Eftir þessu vinst það, að landssjóður hefur altaf sínar vissu tekjur, hlutfallslegar tekjur, og símastöðvarnar vita, að hverju þær ganga, og verður þeirra sameiginlega viðleitni að auka tekjurnar.

Jeg býst við, að þessi skoðun mín muni ekki eiga upp á pallborðið hjer í þessari h. deild; en við það verður að sitja.

Það má t. d. benda á Vestmannaeyjasímann og gjarnan líka Siglufjarðarsímann, sem gefur af sjer stórfé, sem dæmi upp á rangsleitnina í þessu máli.

Hvað snertir breytingartillögur þær, sem fyrir liggja, þá mun jeg greiða atkvæði með þeim, sem fara í þá átt, sem eg nú hef tekið fram.

Jeg hreyfði því í nefndinni, að línan til Hvammstanga væri sett í 2. flokk, en jeg hætti við það, af því að símastjórinn upplýsti mig um, að hann kæmi jafnsnemma fyrir það. Hann sagðist taka hann fyrst af 3. fl. símunum, og að röðin á þeim væri alls ekki bindandi, heldur yrðu þeir símar teknir fyrst, sem mest almennu not hefðu, og líkindi væru fyrir að bæru sig sæmilega, eins og Hvammstangasíminn. Verði hinsvegar breytingatillögur þær, sem fram eru komnar, samþyktar, mun jeg gera breytingartillögu um þetta við 3. umræðu.

Þótt jeg sje ekki áfram um að frv. þetta verði að lögum, þá er jeg ekki viss um, að jeg greiði atkvæði með að fella það, ef breytingartillögurnar verða samþyktar.