19.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 413 í B-deild Alþingistíðinda. (829)

37. mál, vörutollur

Matthías Ólafsson:

Það er að vísu varla gjörandi að lengja umræðurnar, en þó finst mér eg verða að gera grein fyrir atkvæði mínu sérstaklega. Eg var einn af þeim, sem studdu verðtollsfrv., af því að eg hafði þá skoðun, að það hefði mikla yfirburði fram yfir hitt, og er enn á þeirri skoðun. Það var þá á sínum tíma farið hér hörðum orðum um meðferð hv. Ed. á því frv., en eg skal ekki fara að endurtaka þau nú, því að eg álít það heimskulegt að sakast um orðinn hlut, og vanheiður ef deildirnar fara að berast á banaspjótum og láta málin gjalda þess ósamþykkis. Eg get ekki sannfærst um það, þrátt fyrir ræður ýmsra hv. þm, að eigi sé þörf á tekjuauka, enda skýtur það eitthvað skökku við, ef þeir sem héldu fram verðtollinum með dugnaði og þá álitu þörf á fé, álíta það ekki eins nú. Eg er því fráhverfur, að haldið sé lengur áfram á lánsbrautinni. Það heyrist altaf klingja hjá sumum mönnum, að hægt sé að lána — lána, en eg álít að réttara sé hjá sjálfum sér að taka, en sinn bróður að biðja, og þótt komast megi hjá nýjum skattaálögum með því að taka lán, það er að segja meðan ekkert er borgað, þá sé það hættulegur vegur og líkast því, að vilja ekki byrgja brunninn fyr en barnið er dottið ofan í hann. Þess vegna verð eg að vera með þessu frv., þótt mér þyki það verra en verðtollsfrumv., og var það þó að vísu ekki gallalaust heldur.

Að tala um hvers vegna efri deild hafi felt það frv., hygg eg að hafi lítið að þýða, því að um það verður ekkert sannað, en það get eg vottað, að h. flutningsm. minni hl. (B. Kr.) sagði við mig, að ef sitt frumv. félli, þá mundi hann greiða atkvæði með verðtollinum, alveg eins og eg og fleiri, sem nú greiðum atkvæði með þessu frv., til þess að útvega tekjur, en ekki fyrir það, að við séum ánægðir með það.

Það hefir verið bent á, að þótt þetta frv. næði ekki fram að ganga, þá væri enn til önnur leið, sem sé kolatollurinn. Eg þori nú ekki að viðhafa þau orð, sem eg vildi helst um þá uppástungu, en það vil eg segja, að ef á að fara að demba á því þyngsta gjaldi, sem unt er að leggja á útveg allan og stærri iðnað, þá fara að verða merkilegar athafnir þessa þings. Eg álít það einmitt einhvern versta gallann á þessu farmgjaldsfrumv., að kolin eru ekki undanskilin.

Eg skal svo snúa mér að brt. þeim, sem fyrir liggja, og felli eg mig þá, úr því sem komið er, bezt við varatill. hv. 1. þm. Skagf. (Ó. Br.), en ekki við till. hv. þm. S.-Þing. (P. J.) um að hækka tollinn á salti úr 50 aurum upp í 1 kr. á smálestinni, en lækka aftur kolin. Þetta yrði ekki nema að gera ilt verra, því að enn fleiri smálestir flytjast hingað af salti en kolum, og þótt það skiftist á fleiri menn, þá er það hverfandi, sem menn nota af því út um landið. Eg trúi því ekki, að hv. deild sé svo innrætt, að hún vilji með þessum tolllögum ama þeim atvinnuveginum, sem mesta peninga greiðir í landssjóðinn. En það er sorglega satt, að sveitabúum hefir oft hætt til þess, að taka ekki tillit til sjómannastéttarinnar, heldur láta þingið lyfta undir sig á þeirra kostnað. Eg segi þetta ekki af því, að eg vilji láta ama landbúnaðinum heldur, enda eru hér ekki svo margir fulltrúar sjómannastéttarinnar, að hætta sé á því, heldur vil eg að þessar atvinnugreinar hjálpi hvor annari. Eg vil, að úr því ekki er hægt að afnema tollinn með öllu af kolum, þá sé hann látinn halda sér, og tollurinn á salti þá líka sitja við 50 aura.

Eg er samdóma hv. 1. þm. Rvk. (L.B.) um það, að 2. gr. frumvarpsins sé óheppileg, og þykir merkilegt að ekki skuli hafa komið fram brtill. við þetta 15 aura gjald af hverjum póstböggli, hvort sem hann hefir inni að halda vasaklút eða dýrasta silki. En í þessari hv. deild verður nú að ganga til atkv. um frv. eins og það er, og er enginn tími til að breyta þessu nú, en eg vona að hv. efri deild geri það, því að þess er áreiðanlega þörf.

Því var kastað fram áðan, að ekki væri furða þótt hæstv. ráðh. (H. H.) kæmi vel tekjuaukinn. — Nei, það er sannarlega ekki furða, ef hann ætlar sér að gera eitthvað, og það situr illa á þeim, sem fyrir skemstu studdu hann til valda, að vilja nú skilja við hann peningalausan og getulausan, nema gripið sé til örþrifaráða.

Eg skal svo ekki lengja umr. meira, þær eru þegar orðnar mjög langar.