19.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 424 í B-deild Alþingistíðinda. (836)

37. mál, vörutollur

Jón Ólafsson:

Herra forseti! Það er háttv. 1. þm. Árn. (S. S.), sem kemur mér til að standa upp. Mig stórfurðar á því, að heyra hann segja að það sé óþarfi að flytja hey og fóðurbæti til landsins. Eg hefi nú í mörg ár keypt hey frá útlöndum til að gefa kúm, og eg er viss um að það má bjarga tugum þúsunda fénaðar frá felli með korngjöf.

Mig furðaði að heyra háttv. þm. N.-Þing. (B. Sv.), sem annars talaði mjög skynsamlega um þetta mál, segja að ekkert væri á móti því að tolla innfluttar kartöflur af því að þær mætti rækta hér. Eg hefi nú verið lengi hér í Rvk. og mér er kunnugt um að það hefir oft og tíðum alls ekki verið hægt að fá kartöflur fyrir nokkurt verð og stundum hafa þær komist upp í 32 kr. tunnan. Hvað dugar það, að hafa á móti innflutningi á kartöflum af því hægt sé að rækta þær hér, þegar það er ekki gert? Það er eins og ef ætti að leggja haft á innflutning peninga í landið af því að hér sé gull í jörðu. En hvað hjálpar gull í jörðu þegar það næst ekki? Svo lengi sem við verðum að kaupa kartöflur með geysiverði, held eg að ekki sé vert að íþyngja okkur með tolli. En það myndi líklega koma harðast niður á kaupstaðabúum, og það er ekki verið að hugsa um að gera þeim hátt undir höfði.

Háttv. 1. þm. Árn. (S. S.) talaði um að hægt væri að leggja toll á innflutt hey og kaupa fóðurmjöl í verksmiðjunum, sem nú væri verið að stofna hér til að vinna fóðurmjöl úr síld og fiskúrgangi. En þessar verksmiðjur verða fyrst að komast á stofn. Stærstu verksmiðjuna átti að setja upp í Vestmannaeyjum í haust og var búið að ráða forstöðumann og verkafólk til hennar. En í dag barst hingað bréf frá Vestmannaeyjum, og er sagt í því, að ef samþykt verði að leggja útflutningstoll á fóðurmjöl, þá verði hætt við alt saman.

Hvað viðvíkur kolatollinum, þá má segja að hann komi eingöngu niður á þeim sem búa við sjávarsíðuna, því að kol eru mjög lítið notuð til sveita En lang harðast kemur hann niður á botnvörpuskipaútgerðinni, og er það illa farið að íþyngja þessum aðalatvinnuvegi landsins með háum tolli á þeirri vöru, sem honum er lífsskilyrði.

Vér Íslendingar erum nú nærfelt 85.000 og flytjum út árlega um 50 milj. pd. af fiski. Til samanburðar má geta þess, að Norðmenn, sem eru hátt á þriðju miljón, flytja ekki út nema 150 milj. pd. Af þessu má sjá hve stórfeldum framförum við höfum tekið í þessari atvinnugrein. Það er ekki ýkja langt síðan við kunnum ekki að verka fisk. Eg man eftir því, að þegar eg var unglingur hér í skóla, var mikið talað um það í blöðunum, að við þyrftum að læra að verka fisk af Norðmönnum. Þá voru sendir til Noregs í þeim erindum, þeir, Kristinn Magnússon í Engey, Guðmundur í Landakoti og Hafliði Eyjólfsson í Svefneyjum og, að mig minnir, einhver fjórði maður, sem eg man ekki í svipinn, hver var. Nú er svo komið, að Norðmenn eru farnir að panta menn frá okkur til að kenna sér.

Þessi atvinnuvegur ber allar framfarir landsins á herðum sér. Við getum verið stoltir af honum og megum ekki íþyngja honum með háum tollum. Þess vegna vil eg biðja menn, hvað sem öðru líður, að greiða atkvæði með 5. br.till. á þgskj. 310, þar sem farið er fram á lægsta toll á kolum. Það er skylda okkar að fara svo vel sem unt er með þennan atvinnuveg.