16.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 434 í B-deild Alþingistíðinda. (843)

38. mál, skipun læknishéraða (Hnappdælahérað)

Framsögum. (Benedikt Sveinsson):

Það var ekki ætlun mín að rengja hv. 2. þm. Rang. (E. P.). Hann hefir auðvitað sagt þetta, en okkur hefir gleymst það í nefndinni og ekki ratað á réttar tölur. Okkur kom saman um að fólksfjöldinn mundi vera eitthvað um þetta bil, 900, og fórum við þar, að mig minnir, eftir því, sem hv. samþingismaður hans, 1 þm. Rang. (E. J.) sagði á einum nefndarfundinum. En það var annað, en mannfjöldinn, sem var ástæðan til þess, að við tókum ekki þetta hérað fram yfir Hnappdælahérað. Við studdumst líka við nefndarál. frá því í fyrra, sem hv. 2. þm. Rang. (E. P.) hafði skrifað undir athugasemdalaust, og þar var ekki lögð eins mikil áherzla á að stofna þetta hérað, vegna þess að Jökulsá á Sólheimasandi mundi verða brúuð, og að það mundi draga mjög úr annmörkunum, ef líka kæmi dragferja á Þverá. Og þótt dragferjan sé ekki komin ennþá, þá mun það einmitt mest stafa af því, að Þverá er nú með vatnsminsta móti.

Annars er mér það ekki kappsmál, hverjir hlutskarpastir verða í þessum bardaga um læknahéruðin.