07.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 509 í B-deild Alþingistíðinda. (926)

51. mál, íslenskt peningalotterí

Jón Ólafsson:

Herra forseti! Það er líklega ekki vandalaust að mæla þessu máli bót, eftir að hv. þm. Dal. (B. J.) er búinn að flytja slíka reiðiprédikun gegn því, og kalla það siðspillingu og öðrum illum nöfnum. Engu að síður vil eg reyna að bera fram nokkra vörn fyrir okkur flutningsmenn frv. Eg skal ekki vefengja að hann geti tólffaldað tilvitnanir til merkra manna, sem hafa fordæmt lotterí. En það sannar lítið þó hann geti nefnt nöfn þessara og þessara, sem hafa kallað lotterí siðspilling, ef hann getur ekki tilgreint röksemdir þeirra og ef þœr eru ekki gildar. Eg gæti aftur á móti tilfært nöfn fjölda manna jafn merkra, sem hafa talið lotterí réttmætt. Eg ætla þó eigi að fara út í það, heldur vil eg nefna nokkrar af ástœðun þeirra. Sú tilhneiging er innrætt mannlegri náttáru, að vilja græða fé með hægu móti. Hvort hún er ill eða góð, kemur ekki þessu máli við; við verðum að taka hlutina eins og þeir eru og í sjálfu sér er ekkert rangt í henni. En að hún er rík, má sjá af því, hve snemma hún gerir vart við sig hjá þjóðunum. Hjá Germönum og Rómverjum tíðkuðust fjárhættuspil, og hjá Rómverjum kvað svo mjög að þeim, að hegning var lögð við þeim.

Hv. þm. Dal. (B. J.) gat þess, að í mörgum löndum hafi fjárhættuspil verið bönnuð með lögum; en honum láðist að geta um, hvernig slík lög hafa verkað. Sannleikurinn er, að alstaðar hefir verið farið í kring um þau.

Að þessi ástríða, sem eg nefndi, sé djúp hjá mönnum, sést meðal annars af því, hversu tíðar velgerða-tombólur eru, og hversu vel þær borga sig. Það væri ólíku ómaksminna að senda samskotalista um, en það hefir sjaldan nokkurn árangur. Menn láta fúslega fé sitt af hendi, ef von er um að fá eitthvað í aðra hönd. Þetta bendir á lystina til að grœða. En það er galli á tombólunum, að þær laða helst að sér fátækara fólkið; lotteríseðlar í slíkum lotteríum, sem hér er um að ræða, eru aftur á móti ekki svo ódýrir, að allir geti keypt þá. Allar brezkar þjóðir banna lotterí. En þá kemur annað í staðinn, til að fullnægja þessari sömu fýsn, sem er mönnum svo djúp innrætt. Þá eru veðreiða veðmálin í Bretlandi og Bandaríkjunum og yfirleitt öllum enskum löndum vottur þess, hve rík þessi náttúra er hjá mönnum. Sumstaðar í Bandaríkjunum hafa þau verið bönnuð með lögum — svo mjög hefir kveðið að þeim — en þau lög hafa ekki gagnað mikið, því menn hafa farið í kring um þau. Innrætið leynir sér ekki. Þá má nefna kosninga-veðmálin. Það veit enginn nema skaparinn, hve miklar upphæðir skifta höndum í þeim veðmálum! í Bandaríkjunum og Bretlandi nemur það vafalaust hundruðum miljóna.

Og ekki má gleyma kauphallar-spilunum, þar sem menn oft kaupa og selja meir en til er í heimi af vörunni! Seljandi skuldbindur sig til að selja kaupanda svo og svo mikið af t. d. hveiti fyrir tiltekið verð eftir tiltekinn tíma, t. d. 3 mánuði. Það er ekki endilega ætlast til að nein afhending fari fram. Áhættan er fólgin í því hvernig markaðsverðið verður á ákveðnum afhendingardegi. Sé það hærra en hið tiltekna söluverð, þá borgar seljandi kaupanda mismuninn, en kaupandi seljanda, ef verðið hefir lækkað. Þetta er bara lotterí — ekkert annað en lotterí! Og þetta altíðkast nú í hverju landi í heimi — jafnvel farið að bóla á því hér.

Alt þetta bendir á, að þessi löngun sé svo rík í mannlegri náttúru, að ekki sé auðið að girða fyrir það með lögum, að menn reyni að fullnægja henni.

Þá verður spurningin hvort hollara sé, að menn brjóti lögin og fullnægi þessari löngun í laumi, eða að mönnum sé leyft að gera það með lotteríi, þar sem trygt er um búið, að í öllu sé rétt að farið. Eg tel hið síðara óefað hollara. Ein ástæða þeirra er leyfa vilja lotterí, er, að hollara sé að veita mönnum aðgang að því að leita lukkunnar í stofnun, þar sem ekki er hætta á að menn verði flegnir. Þetta eru ástæðurnar til þess að eg get vel felt mig við að lotterí sé leyft, ef vel er um búið. Þess ber líka að gæta, að æðimargir hérlendir menn kaupa seðla í útlendum lotteríum, og fyrst svo er, þá er sýnilega betra að ágóðinn af því gangi til ríkisins heldur en út um heiminn. Eg skal kannast við það, að fyrir þá menn, sem eru svo strangir, eins og hv. þm. Dal. (B. J.), að kalla t. d. alla tolla þjófnað, er full ástæða til að fordæma lotterí, en eg efast nú um að þingdeildin sé svo ströng að hún vilji afnema alla tolla af siðferðis-ástæðum.

Þá hneykslaðist hv. þm. á því, að vér skyldum vilja takmarka sölu seðla hér, en freista aftur á móti fátækra útlendinga, eins og hann orðaði það. En satt að segja gerum vér það alls ekki, því að þeir geta keypt seðla hvort sem er í útlendum lotteríum, og þau eru meira að segja flest lakari en þetta.

Í Hamborgar-lotteríinu til dæmis að taka, eru vinningarnir að eins 65%, en í þessu lotteríi eiga þeir að vera 70%; við gefum því betri kjör. Í Rúmeníu er mér kunnugt að kostirnir eru enn lakari en í Hamborgar-lotteríinu. Þessi freistingar-ástæða er því ekki mikils virði.

Eg er samdóma því sem getið er um í nefndarálitinu og hv. þm. S.-Þing. (P. J.) talaði ítarlegar um að rétt sé, að það komi fram nú þegar við þessar umr. og áherzla sé lögð á það, að haft verði í huga þegar lotteríið fer að gefa landinu tekjur, að þeim verði varið til einhverra sérstakra nytsemdarfyrirtækja.

Það mun vera rétt, að ástæða sé til að orða 7. br.till. öðru vísi, eins og hv. ráðherra benti á, og mun nefndin vafalaust athuga það. En eg held ekki að ástæða sé til að breyta orðalaginu 1. gr. e. 2. málsgrein. Orðið: „einkaleyfishafar“ á ekki aðeins við þessa 3 menn sem nú sækja um leyfið, heldur hverja þá menn eða mann, sem hefir leyfið á hverjum tíma.

Þá þótti háttv. þm. Dal. (B. J.) það synd við móðurmálið að halda orðinu lotterí. Hann sagði, að Íslendingar ættu að tala íslenzku. Eg get ekki fallist á að fáein einstök orð útlend geti spilt málinu, þó tekin séu upp í það. Það sem spilir málinu er það, er menn hugsa á útlenzku, hafa útlenzka setningaskipun. Forfeður okkar voru ekki feimnir við að taka upp útlend orð, eins og t. d. kirkja, prestur, prófastur, pund, og mýmörg önnur og amaðist enginn við þeim Afar mörg af þeira orðum sem við notum daglega, eru útlend, svo sem kaffi, sykur, tóbak, salt o. s. frv., og efast eg ekki um að háttv. þm. Dal. (B. J.) notar þau engu síður en aðrir. Enginn heldur því fram að slík orð hafi spilt málinu minstu vitund. Það er satt, sem hv. framsögum. meiri hl. (L. H. B.) sagði, að það er þýðingarlaust að innleiða í málið nýyrði sem eru fædd andvana, eins og hv. þm. Dal. (B. J.) reyndi að gera með orðum sínum yfir metrakerfið. Eg man þau ekki öll, og eg efast um að hann muni þau sjálfur, og sárafáir nota nokkurt af þeim í riti — alls enginn í tali. Eg man eftir orðum eins og staup og seytill; eg held hann hafi líka notað dreitill, ögn, kvöl og lús, og gott ef ekki agnarögn, lúsakvöl og kvalarögn!! Hann sagði, að ekki væri erfiðara að nefna stiku en metir, sem menn þektu ekki og vissu ekki hvað væri. Það er satt að við þekkjum orðið stika, en það hefir aldrei haft sömu merking sem metri. Eg held að við séum að berjast um keisarans skegg; því þessi útlendu orð spilla að engu leyti málinu. Ekki fremur en lóð, pund og kvint, pottur og peli, meðan þau voru notuð.