18.08.1913
Neðri deild: 37. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 1398 í C-deild Alþingistíðinda. (1012)

1. mál, fjárlög 1914 og 1915

Björn Kristjánsson:

Eg gleymdi áðan að minnast á eitt atriði í tillögum fjárlaganefndarinnar, um að lækka styrkinn til dr. Helga Pjeturss. Á síðasta fjárlagaþingi kom fram svipuð tillaga, en hún náði ekki samþykki. Menn gerðu sér von um, að heilsu hans mundi fara fram, og henni hefir farið fram. Að hinu leytinu er hætt við, að það gæti haft slæmar afleiðingar fyrir heilsu hana ef styrkurinn yrði nú lækkaður. Þegar þessi styrkur er veittur, verður að taka tvent til athugunar: Fyrst það, að styrkþegi geti lifað sómasamlega af honum, og í öðru lagi, að hann geti kostað til ferðalaga til að rannsaka jarðlög hér á landi. Ef honum verða ekki veittar nema 1200 kr., þá getur alla ekki verið um nein ferðalög að ræða, heldur yrði þetta þá nokkurs konar fátækrastyrkur og myndi ekki ná tilgangi sínum. Þess vegna verð eg eindregið að mæla með því, að upphæðin haldist óbreytt eins og stjórnin hefir sett hana í fjárlagafrumvarpið. Eg held, að nefndin hafi ekki athugað þetta atriði. Það er ekki nóg, að veita honum að eins styrk til að sitja á skrifstofu og skrifa, heldur þarf hann einnig að leggja töluvert í kostnað við ferðalög. Hann hefir ferðast nokkuð á þessu ári, og til ferðalaganna þarf hann ekki einungis reiðhest, heldur og koffortahesta til að flytja heim sýnishorn. Auk þess þarf hann að hafa ýmis áhöld, haka, skóflur og fleira. Það er að eins þetta, sem eg vildi athuga, og eg vona, að hv. deild láti tillögu stjórnarinnar standa óbreytta.