19.08.1913
Neðri deild: 38. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 1491 í C-deild Alþingistíðinda. (1048)

1. mál, fjárlög 1914 og 1915

Ólafur Briem:

Eg er þakklátur háttv. framsögum. (P. J.) fyrir skýringu hans viðvíkjandi afstöðu nefndarinnar til breyt.till. minnar um fjárveitingu til bryggjugerðar á Sauðárkrók, þeirri afstöðu, að nefndin er ekki fjarri því, að tekin verði upp endurveiting á þessari fjárveitingu, nokkuð hærri en 1911 — þá var fjárveiting 3000 kr. En mér skildist svo sem nefndinni þætti 6000 kr. í hæsta lagi. Það getur auðvitað verið álitamál, en annars er ekki mikið, sem milli ber. Þó að nefndar séu 6000 kr. í breyt.till., þá er það með því fororði, að það sé veitt alt að þeirri upphæð. Fjárveitingin takmarkast þannig á tvennan hátt. Í fyrsta lagi er það áreiðanlegt, að ekki þarf meira en þessar 6000 kr. og héraðið leggi fram 2/8 hluta og í öðru lagi getur verið að 6000 kr. sé óþarflega há upphæð, en þá sparast líka afgangurinn. En þegar um slík þarfa fyrirtæki sem þetta er að ræða, þá skifta nokkur hundruð krónur fjárhag landsjóðs ekki miklu. Það ber og að líta á, að þetta er framleiðslu-fyrirtæki, þar sem það greiðir mikið fyrir sjávarúthaldi og kemur landssjóði óbeinlínis til gagns með auknum gjöldum. Og þar sem svo mikið er um skipaferðir þarna og það af þeim skipum, sem landssjóður styrkir til ferðanna, þá skiftir það miklu, að afgreiðslan geti gengið liðlega. Það geta tapast mörg hundruð krónur við það, aðskipin tefjast. Eg get því ekki séð betur en viðunandi sé að breyt.till. standi eins og hún er framkomin, sérstaklega þar sem þetta hérað hefir ekki farið fram á háar kröfur á undanförnum þingum og þetta er eina fjárbeiðnin, sem kemur þaðan nú. Líka ber þess að gæta, að héraðið er stórt og gefur landssjóði allmiklar tekjur, einkum tolltekjur. Eg vona því að bæði háttv. nefnd og deild geti fallist á þessa breyt.till mína.

Fleiri tóku eigi til máls, og var þá gengið til atkvæða.