20.08.1913
Neðri deild: 39. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 1518 í C-deild Alþingistíðinda. (1059)

108. mál, strandferðir

Lárus H. Bjarnason:

Háttv. þm. Ak. (M. Kr.) hefir tekið fram mest af því sem eg ætlaði að segja. Eg lét það í ljós þegar á þingi 1903, og hefi haldið þeirri skoðun fram síðan, að rétta stefnan í samgöngumálum á sjó, væri, að ætla flóabátum sem mest starf, en strandferðaskipunum að eins að koma á 1–2 staði í hverjum flóa. Mér skilst sem háttv. samgöngumálanefnd ætlist til að strandferðaskipin verði tvö, hvort sem Eimskipafélag Íslands eða landsjóður eigi að kosta útgerðina, en er víst að strandferðaskipið þurfi að vera nema eitt, ef horfið væri að því að fjölga flóabátum og styrkja þá svo, að hrykki hverjum flóa? Eg held t. d., að það mundi vera nóg að hafa einn eða tvo viðkomustaði við Breiðafjörð og líkt mun ástatt um aðra flóa á landinu.

Viðvíkjandi því, sem háttv. 1. þingm. Skagf. (Ól. Br.) sagði, að haganlegast væri að millilandaflutningur og strandflutningur væri í höndum sama félaga af því að þá sparaðist umhleðslugjald, þá er það að vísu rétt, en tæplega framkvæmanlegt, því ekki verður girt fyrir það, að fleiri félög flytji vörur hingað, enda væri það ekki æskilegt, þótt hægt væri.

Eg vildi annara leyfa mér að stinga upp á því við hæstv. forseta og háttv. framsögum., hvort ekki mætti fresta 3. umr. um þetta mál, þangað til að lokið er 3. umr. fjárlaganna hér í deildinni, svo að einnig fjárlaganefndinni gefist koatur á að athuga það, áður en það yrði útrætt hér. Eg mun ekki taka fasta afstöðu til máleins nú við þessa umr., en að sjálfsögðu styðja það með atkvæði mínu til 3. umr.

Annars finst mér undirtektir samgöngumálanefndarinnar undir umsókn Eimskipafélagsins um styrk dálítið undarlegar. Nefndin vill veita því háan styrk, en binda þá aftur þeim bagga að annast strandferðirnar. Það er með öðrum orðum svarað í vestur, þótt spurt væri í austur. Nefndin hefði mátt segja af eða á um umsókn félagsins. Raunar þarf ekki að furða sig á því, þó að eitthvað kynni að vera athuga við tillögu nefndarinnar, því að starfstími hennar hefir verið naumur, enda málið gersamlega óundirbúið af stjórninni. Eg vona, að nefndin fallist á að fresta 3. umr. þangað til 3. umræðu fjárlaganna er lokið, þá er eg fyrir mitt leyti ánægður í bráðina.