20.08.1913
Neðri deild: 39. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 1527 í C-deild Alþingistíðinda. (1066)

108. mál, strandferðir

Þorleifur Jónsson:

Eg hafði ekki hugsað mér að taka til máls, vegna þess að eg hélt ekki að þetta frumv. mundi sæta þeim andmælum, sem raun er á orðin.

Frumvarpið gengur í þá stefnu, sem fer mest að óskum landsmanna. Og ef litið er til þingmálafundagerðanna, þá er altaf helzta krafan, alstaðar, að lagi sé komið á strandferðirnar og samgöngurnar yfir höfuð. Menn hafa fundið þar einna sárasta þörfina, vegna þess, hve samgöngurnar eru nú óþjálar og örðugar, að minsta kosti á mörgum atöðum. Það hafa verið skiftar skoðanir um það, hvort það væri rétt, að landssjóður sjálfur tæki að sér strandferðirnar, ef Eimskipafélagið fengist ekki til þess. En frá mínu sjónarmiði er það ekkert vafaspursmál, að landið á að gera það. Heppilegast væri auðvitað, ef hægt væri að koma því við í sambandi við Eimskipafélagið og það þá nyti hlunninda og ríflega styrks úr landssjóði, en fáist það ekki, þá verður að hefjast handa til þess að landið taki strandferðirnar sem fyrst að sér. Mér dettur ekki í hug, að lands sjóður fái beinan gróða af því. En það er ekki aðalatriðið. Óbeinlínis græðir þjóðin mikið meira við það, að ferðirnar komist í hagkvæmara horf en nú er. Eg vildi því óska að stjórnin fylgdi fast fram hugmyndinni í 2. og 3. gr.; að lögin verði ekki neitt pappírsgagn, heldur komist ákvæði þeirra í framkvæmd. En aðallega knúðu mig til að standa upp ummæli háttv. þm. Ak. (M. Kr.), sem hélt því fram, að heppilegast mundi vera að hafa að eins eitt strandferðaskip með fáum viðkomustöðum, en hafa flóabáta til þess að flytja vörurnar frá aðalstöðunum. Eg hefi ekki mikla trú á að þetta gæti orðið til blessunar fyrir landið í heild sinni. Eg er hræddur um, að þetta skip mundi að eins koma við á þeim stöðum, sem millilandaskipin koma við á nú og mundi að eins fjölga skipaferðum á þeim stöðum, þar sem nægar samgöngur eru fyrir. Það mundi því lítið bæta úr skák fyrir afskektari plássin. Eg held að ekki verði komist hjá 2 strandbátum líkum Austra og Vestra. Háttv. þm. hélt, að hægt væri að koma lögun á þetta með flóabátum. En þess ber að gæta, sem tekið hefir verið fram, að við höfum þessa flóabáta, eins marga og háttv. þm. gerir ráð fyrir nú, og samt hafa 2 strandferðaskip nóg að gera og fullnægja naumast þörfum landsmanna. Hitt er annað mál, að eg efa ekki, að hægt væri að koma sambandinu milli flóabáta og atrandferðaskipa mikið betur fyrir en nú er. Háttv. þm. byrjaði á Faxaflóanum og þræddi svo firðina vestur og norður um alt að Fáskrúðsfirði — þar strandaði hann. Viðvíkjandi Suðurlandi og samgöngunum þar, sagðist hann treysta járnbrautinni. Það er nú gott og blessað, en eg er hræddur um, að það eigi langt í land, að hún komist austur á firði — og fyrir atrandlengjuna frá Fáskrúðsfirði um Stöðvarfjörð, Breiðdalsvík, Djúpavog, Hornafjörð o.s.frv. alt að Stokkseyri dugar flóabátur alls ekki — og því síður járnbraut, sem alls ekki er gert ráð fyrir »í nánustu framtíð« að nái lengra en að Þjórsá. Og hún er líka ólögð ennþá og nógur tími að gera ráð fyrir samgöngubótum af henni, þegar ákveðið verður að leggja hana, sem óvíst er að verði bráðlega. Að minsta kosti geri eg mér ekki miklar vonir um að hún verði lögð áustur yfir sandanda og stórvötnin í Skaftafellssýslum. Eg álít líka skynsamlegra og heppilegra að nota þá braut, sem ekkert kostar að leggja, þarf enga teina, eða undirbyggingar — og það er sjórinn. Þar þarf ekki annars við en skipanna. Nei! Það verður ekki komist af með minna en tvö skip. Eins og nú hagar til, eru samgöngurnar milli Reykjavíkur og Austfjarða svo vondar, að illhægt er að komast þar á milli oftar en einu sinni á mánuði. Eini milliliðurinn er Seyðisfjörður og það er ljóst, hvílíkum óþægindum það veldur bæði fyrir fólks og vöruflutninga.

Eg get fallist á þá tillögu nefndarinnar, að settur verði sérstakur ráðunautur, stjórninni til aðstoðar í samgöngumálunum — og hann hefði ekki um annað að hugsa. Það er að mínu áliti mikið hyggilegra en að vera að setja, upp hagstofuna svokölluðu, sem í raun og veru er ekki annað en að bæta einni skrifstofu við í stjórnarráðinu.