30.08.1913
Neðri deild: 47. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 1902 í C-deild Alþingistíðinda. (1249)

35. mál, ný nöfn manna og ættarnöfn

Framsm. meiri hl. (Jón Ólafsson):

Frumvarpið. sem hér liggur fyrir, er komið frá Ed og var vísað í nefnd hér. Eins og nefndarálitið ber með sér, þótti nefndinni, eða meiri hl. hennar, frumvarpið vera, of víðtækt, taka yfir efni, sem ekki ættu að heyra undir löggjafarvaldið. Meiri hlutinn lítur svo á, að ekki beri að takmarka einstaklingsfrelsi manna, nema almenn nauðsyn þjóðfélagsins krefji þess, og hann gat ekki séð, að hér lægi nein slík nauðsyn fyrir. Meiri hl. áleit sömuleiðis, að það ætti að vinna að því með ræðum og ritum að bæta smekk manna, en löggjafarvaldið ætti ekki að þröngva mönnum í því efni. Það er því viðsjárverðara að setja lög til að stjórna tilfinningum og smekk manna sem slíkt er mjög breytingum undirorpið. Ein kynslóð getur álitið það gott eða fagurt, sem önnur telur óhafandi, og jafnvel á sama tíma er alls ekki víst að þjóðin sé á einu máli um smekk og tilfinningar.

Í þriðja lagi lítur meiri hluti nefndarinnar svo á, að óhögguð eigi að vera sú góða og gamla regla, að einstaklingafrelsið eigi að vera sem mest, af því, að höft á því hefti eðlilega breytiþróun þjóðanna til þeirrar fjölbreytni, er gerir mannlifið auðugt og fjölskrúðugt; því álítur meiri hlutinn, að hver einstaklingur eigi að vera sinn hæstaréttardómari í þessum efnum. Aftur á móti áleit meiri hlutinn að heimilt væri að hefta menn í að skifta um nöfn til að villa á sér heimildir, kalla sig einu nafni eitt árið og öðru hitt.

Mér er kunnugt um, að það er föst regla hjá bönkum erlendis, að láta viðskiftamenn sína skrifa í sérstaka bók nafn sitt (eða á spjöld, sem raðað er eftir Stafrófsröð) þegar viðskiftin byrja, og taka svo eigi gilda undirskrift þeirra, ef þeir skrifa öðruvís undir síðar.

Meiri hlutinn er sammála frumv. Ed. um að banna mönnum að breyta nafni sínu, hvort heldur skírnarnafni, kenningarnafni eða ættarnafni. Sá maður, sem hefir verið skírður einhverju nafni, verður að sitja með það, nema hann fái löglega heimild til að breyta um nafn. Að stjórninni veitist heimild til að leyfa mönnum nafnbreytingar, þegar gild ástæða er til, sem auðvitað getur verið, fanst meiri hlutanum sjálfsagt. Þeir vesalings menn, sem hafa orðið fyrir því óhappi, að vera skírðir einhverjum skrípanöfnum, eiga beinlinis heimtingu á að fá að breyta um nafn. Þeir sem farið hafa yfir mannanafnalista vora að fornu og nýju, munu hafa rekist á ýms hneykslanleg nöfn. Get eg t.d. bent á kvenmannanöfnin: Þjóðgata og Almannagjá, Fimmsetrína o.fl.

Þá ætla eg að minnast á ættarnöfn. Meiri hlutinn vildi leyfa ættarnöfn og var meira að segja á þeirri skoðun, að æskilegt væri að þeim fjölgaði sem mest. Einn maður í nefndinni vildi jafnvel lögbjóða ættarnöfn; meiri hlutinn gat ekki fylgt honum í því, en vildi láta breytiþróunina ráða, hvernig um það færi, en var samt þeirrar skoðunar, að ekki mundi líða langur tími unz allir menn hér sem annarstaðar bæru ættarnöfn.

Í frumv. frá Ed. eru undan skilin þeim nöfnum, er nota megi sem ættarnöfn, nöfn er enda á »son«. Það er nú vitanlegt, að slík nöfn eru tíð hér á landi, en svo er einnig í öðrum löndum. Eg hygg, að í inum enskumælandi heimi séu engin nöfn algengari en t. d. nöfnin Smithson og Johnson, en eigi hefir þótt ástæða til að banna þau þar. Meiri hlutinn vildi ekki skifta sér af þessu, og það því síður, sem margir hafa slík nöfn nú, einnig konur. Þessu mun loks hafa verið fundið til foráttu, að vont væri að beygja orðin, en þau má vel nota óbeygð, nema -s í eignarfalli.

Nefndinni þykir æskilegt að stjórninni sé falið að semja skrá yfir mannanöfn, sem sæmileg þyki í málinu, en vill þó ekki að menn séu skyldaðir til að nota þau ein og megi ekki nota nein önnur. Skráin ætti eingöngu að vera mönnum til leiðbeiningar, sér í lagi sýna mönnum, hvernig rétt eigi að mynda nöfn.

Af þessu sem eg nú hefi sagt, býst eg við, að háttv. deildarmönnum verði auðskildar efnisbreytingar, þær er nefndin leggur til að gera á frumv.

Orðabreytingar hefir nefndin gert nokkrar. Nafnfesti þykir henni óhafandi til að tákna með leyfisbréfum nafntöku eða nafnbreyting. Orðið er að vísu gamalt, en það hefir ávalt verið notað í alt annari merkingu. Upphaflega var það í fornu máli kallað nafnfesti ef maður gaf öðrum kenningarnafn og gaf honum grip fyrir að þiggja nafnið, svo sem til að festa það við hann. Það var nafngjafinn, sem gaf nafnfesti. Hér er farið fram á að nota orðið í alveg gagnstæðri merkingu; hér á nafnþeginn að borga gjald fyrir að mega bera nafn, sem hann tekur upp sjálfur. Nú á dögum er sjálfur gripurinn kallaður nafnfesti.

Í frumv. hefir upphaflega staðið, að er menn væru orðnir 18 ára, skyldu þeir fá að ráða nafni sínu. En bæði samkvæmt Grágás og Jónsbók voru menn fullráða sjálfum sér. 16 ára gamlir. Og þetta eru og hafa jafnan verið lög á Íslandi. Sbr. ákvæði hjúalaganna um að menn megi ráða sig í vist 16 ára. Það er undarlegt, að stjórnin skuli ekki vita þetta. Hitt munu vera lög í Danmörku, en nefndinni þótti sjálfsagt, að halda hér samræmi við það sem eru furn og ný íslenzk lög um persónusjálfstæði manna; leggur hún því til, að fyrir 18 ár komi hvarvetna 16 ár.

Í frumv. er hvarvetna gert ráð fyrir skírn á börnum; en eins og mönnum er kunnugt, er skírn ekki lengur skylda. Þeim fjölgar altaf ár frá ári, sem ekki láta skíra börn sín; þótti meiri hlutanum því rétt að breyta orðalaginu á frv. eftir því.

Aðrar breyt.till. meiri hlutans held eg að eigi þurfi skýringar við.

Minni hlutinn, minn skemtilegi sessunautur, hefir komið fram með ágreiningsálit, og skal eg taka fram, að það er samið á svo fallegu máli, að ef eg væri þess megnugur, skyldi eg veita honum verðlaun fyrir. En þegar til efnieins kemur, er öðru máli að gegna. Hvað það snertir, er eg á gagnstæðri skoðun. En eg býst við að hann muni styðja mál sitt með nokkrum orðum og ætla eg að bíða þess, að eitthvað komi, fram í ræðu hans, sem eg sjái sérstaklega ástæðu til að svara.

Er hér var komið, var kl. 8 síðdegis, og var þá gefið fundarhlé til kl. 9.

Kl. 9 Var fundi fram haldið.