30.08.1913
Neðri deild: 47. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 1924 í C-deild Alþingistíðinda. (1259)

35. mál, ný nöfn manna og ættarnöfn

Bjarni Jónsson:

Háttv. 1. þm. S.-Múl (J.Ól.) sýndi í svari sínu til mín, hve rökfimur hann er og sniðugur í því að búa það til, sem þarf til sönnunar. Hann vildi sanna ágæti bókaskrárreglu sinnar með því, að hann hefði fengið marga góða íslenzkumenn til þess að fallast á hana. Þetta sýnir ekki annað en það, hvílíkur hættumaður hann er, þar sem hann gat leitt svo góða menn til þess að fallast á þessa endaskiftareglu. Og það þarf ekki lítið til þess, að fá greinda menn til að láta bókaskrárnar vera svo úr garði gerðar, að enginn maður geti fundið þá bók, sem hann vill fá í skránum. Það er ekki víst að menn viti alt af föðurnafn manna, sérstaklega vegna þess, að það er venja hér, að kalla menn með skírnarnafni og sumir þekkjast alla ekki undir öðru. Og þótt menn væru svo hepnir að vita föðurnafnið líka, þá er ekki víst að það kæmi að haldi. Ef t.d. synir Jóns Ólafssonar færu að skrifa bækur, þá mundu menn alls ekki finna þær í skránum. Það er ósennilegt að menn væru svo klókir, eða vitlausir, að fara að leita undir Ólafsson, þar sem þeir þekkja nöfnin á piltunum og vita að þeir eru Jónssynir.

Annars virðast mér sannanir þessa háttv. þingmanns minna á gömlu sönnunina: Enginn köttur hefir 10 rófur. Einn köttur hefir einni rófu meira en enginn köttur, ergo hefir einn köttur 11 rófur.

Þá notaði háttv. þingmaður það sem vopn á mig, að þrír háttv. þingmenn, sem hér eru, eru svo óhepnir að eiga forfeður, semhafa kallað sig útlendu nafni. Eg get hugsað, að hann öfundi þá af því, að þeirra ónefni er eldra en það, sem hann er nú að búa til á sín börn.

Þá var það háttv. þm. V.-Ísf. (M. Ól.) sem vildi reikna mér það til syndar, að eg skrifaði aftan við nafn mitt frá hvaða bæ eg væri, vegna þess að það væri ekki óðal. Það getur verið, að þessi háttv. þingmaður vilji banna mönnum að segja, hvar þeir hafi verið síðast, eða hvaðan þeir séu. Eg hefi þó vanist því að menn segðu, þegar þeir mættust á förnum vegi: »Hvað heitir þú?«. »Eg heiti Bjarni«. —»Hvers son?«. »Jónsson«. — »Hvaðan ertu?«. »Eg er frá Vogi«. Er þetta útlent kannske ? Annars hefi eg aldrei ætlað mér að leggja neitt eignarhald á Vog — enda er hann ekki svo stór. Og þetta verður aldrei ættarnafn. En það er svo til komið, að maður, sem talsvert skrifaði, var samnefndur mér og urðu mestu vandræði úr, því að menn viltust um. Var þá annað hvort fyrir, að auðkenna okkur þannig, að kalla hann kristna Bjarna og mig heiðna Bjarna, eða þá hitt, sem eg kaus heldur, að auðkenna mig með þeim bæ, sem eg var frá.

Viðvíkjandi því, sem háttv. þingmaður var að tala um, að okkur mundi hagur að því, að missa beygingarnar úr tungu okkar, vegna þess, að útlendingum mundi þá veitast léttara að læra hana, þá er ekki um það að ræða hér. Annars er þessi kenning gömul. Hún minnir og á það, sem gamall og þektur ritstjóri lagði til í blaði sínu fyrir nokkrum árum, að við hættum að tala og rita móðurmál vort og tækjum upp í þess stað ensku. Það er svo misjafnt matið á þessu. — væri líklega réttast að tilnefna úttektarmenn til að meta það, hvort við ættum að halda tungunni eða ekki.

Það sem hann sagði um kínverska múrinn, var talað út í bláinn og hverf eg frá því.

Eg veit það vel, að frumvarpið fer ekki fram á það, að lögskipa ættarnöfn, heldur er tilgangurinn í orði kveðnu sá, að setja reglur um, hvernig eigi að taka þau upp. Og í sambandi við það hefi eg lagt til, að bannað yrði að taka upp ónefni, er spilla tungunni. Og eg get ekki séð annað en það komi málinu talsvert við.

Eg skal minna á það, að í þinginu 1911 bar eg fram frumvarp um það að banna ættarnöfn. En það frumv. fekk ekki byr, vegna þess að móðurmálabókar og orðabókar höfundar o.fl. lögðu á móti því. Svo komu þessir menn með þingsályktunartillögu á seinasta þingi um að fela stjórninni að semja eitthvað frumvarp, sem ekki væri í þjóðernis verndunaráttina.

Eigi þetta frumv. að eins að vera til þess að koma í veg fyrir, að menn villi á sér heimildir, þá væri það eitt nægilegt, að setja eina gr. með sektarákvæði — svo og svo miklu skyldi það varða, ef menn viltu á sér heimildir. Þá þyrfti ekki alla þessa langloku, sem öll er til athlægis, að því einu undauskildu, að prestar gæti neitað að skíra börn ónefnum.

Annars held eg að bezt væri, að þetta mál fengi að biða þangað til búið er að samþykkja stjórnarakrána og við fáum nýjar kosningar og náum þessum sér vitringum, svo sem hv. 1. þm. S.-Múl. burtu af þinginu.

Eg mun því greiða atkvæði með þeirri rökstuddu dagskrá, sem háttv. þingm. N.-Ísf. hefir borið fram.