03.09.1913
Neðri deild: 50. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 2069 í C-deild Alþingistíðinda. (1350)

43. mál, samþykktir um hringnótaveiði

Framsögum. (Stefán Stefánsson):

Eg hefi áður tekið fram helztu atriði viðvíkjandi þessu máli og af hverjum ástæðum það er fram komið, og skal eg ekki fjölyrða um það nú. Eg skal geta þess, að efri deild hefir gert þrjár breytingar á frv. frá því sem samþykt var hér í deildinni. Tvær þessara breytinga eru fremur smávægilegar, en að mínu áliti þó til verulegra bóta. Önnur breytingin er í því fólgin, að tiltekinn er viss staður vestan Eyjafjarðar, sem takmarkalínan stefnir frá um nyrðri enda Hríseyjar til landa að austanverðu fjarðarins. Takmarkalínan hefir þannig að eins verið ákveðin nánara heldur en áður var, þar sem þá var ekki tilnefnt annað en norðurendi Hríseyjar. Í öðru lagi hefir verið breytt fyrirsögn frumvarpsins þannig að orðið »herpinót« er notað í stað orðsins »hringnót«. Þessi orðabreyting mun aðallega stafa af því, að annað frv. hefir verið til meðferðar í þinginu viðvíkjandi síldveiði, og var þetta veiðarfæri þar nefnt »herpinót«. Þessi breyting miðar því til þess eins, að veiðarfærið sé nefnt sama nafni í báðum frumv. En svo er aðalbreytingin um það, að heimild til að gera samþyktir um herpinótaveiði nái einnig til insta hluta Skagafjarðar. Að vísu var svipuð tillaga feld hér í deildinni við 2. umr. málsins, en sá var þó munur á, að þar var takmarkalínan ákveðin nokkru norðar á firðinum. Hún er nú ákveðin innan beinnar línu milli syðri enda Þórðarhöfða og Ingveldarstaðarbæjar á Reykjaströnd, og segja kunnugir menn, að það muni um eina mílu frá því sem áður var. Það mun vera mjög lítið um herpinótaveiði á þessu svæði, og til lítilla nota fyrir herpinótaveiðendur, svo að það virðist ekki vera minsta átylla til að álíta, að þetta geti orðið skaðlegt fyrir herpinótaveiði þar.

Það hefir farið líkt fyrir háttv. þm. Skagf. í efri deild eins og fyrir mér, að við höfum orðið að slá töluverðu af þeim upphaflegu kröfum, sem kjósendur okkar og þingmálafundir í þessum kjördæmum skoruðu á okkur að flytja fram á þinginu.

Eg skal láta þess getið, að háttv. efri deild leitaði í þessu máli álits þess manns, sem líklega hefir bezt vit á því hér á landi, þar sem er Bjarni fiskifræðingur Sæmundsson, og áleit hann það meinlaust sem tilraun, að heimila slíkar samþyktir, sem hér er farið fram á. Einnig hefir verið minst á þetta við gamlan og reyndan skipstjóra einn, sem er mjög fróður í þessum efnum, og álítur hann það sama, að af þessu geti engan verulegan skaða leitt.

Þá hafa sumir viljað hafa það á móti þessu máli, að fiskveiðasamþyktir, þær sem áður hafa verið gerðar hér á landi, hafi ýmist verið brotnar eða til beins skaða fyrir veiðiskap alment. En jafnvel þótt sú hefði verið reynslan um sumar samþyktir, þá álít eg að þessi heimild til fiskveiðasamþykta sé alt annars eðlis og ekki sambærileg við aðrar samþyktir.

Eg sé svo ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um málið að svo stöddu og treysti því, að menn láti það ekki falla við þessa umræðu, þar sem öllum hlýtur að vera það ljóst, að það hefir verið slegið miklu af inum upphaflegu kröfum og hins vegar vitanlegt, að álít almennings er, að þessi veiðiaðferð hafi haft stórspillandi áhrif á veiðiskapinn, sérstaklega þó á Eyjafirði. Málið fór héðan úr deildinni með talsvert miklum atkvæðamun, og eg sé ekki að þær breytingar, sem efri deild hefir gert, geti orðið þess valdandi, að menn verði nú fráhverfari málinu heldur en áður. Og í efri deild var það afgreitt með mjög miklum atkvæðamun. Eg hefi því beztu von um að það nái fram að ganga í þeirri mynd, sem nú hefir það.