30.07.1913
Efri deild: 19. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 345 í B-deild Alþingistíðinda. (1777)

93. mál, hallærisvarnir

Sig. Eggerz:

Jeg get verið samdóma þeim ræðumönnum, er halda fram, að þetta sje töluvert alvarlegt mál, og ástæða sje til að íhuga það.

En þegar verið er að ræða um það, hvernig bezt sje að tryggja þjóðina gegn slíkum hættum, þá held jeg, að það sje ekkert álitamál, að bezta ráðið til þess sje að efla atvinnuvegina og koma samgöngum vorum í sem bezt horf. Og það þarf að efla landbúnaðinn og bæta samgöngurnar.

En það verður að vera yfirvofandi hætta og ástæða til þess að stofna slíkan sjóð, eins og hjer er gert ráð fyrir, þegar menn fara, í viðbót við þá skatta sem fyrir eru, að bæta við nýjum sköttum.

Á síðasta þingi var með mjög svo óheppilegum lögum dembt á þjóðina um 1/2 milj. kr. skatti á ári, og nú eru í háttv. Nd. skattafrv., er hækka skattana um hjer um bil 100,000 kr., og svo bætist við hjer í þessari háttv. deild þetta frv. með 3044 þús. kr.

Þetta er mikil viðbót.

En þó að hv. deild álíti ástæðu til að bseta þessu við, þá verður hún að gæta þess, að leggja skattinn rjett á, en hann er lagður hjer eins á og í lögum um gjöld til prests og kirkju.

Það er nefskattur.

Enginn neitar því, að það eru til bæði efnamenn og fátæklingar, og að þeir sjeu ekki jafnfærir til gjalda.

Eftir þessu frumvarpi ætti ríkasti maður á Suðurlandi, hr. umboðsmaður Halldór Jónsson í Vík, jeg tel það enga minkun fyrir hann, þótt jeg nafngreini hann, að greiða 4 kr. í hallærisvarnir, en þar er annar maður mjög fátækur, er jeg ekki hirði að nafngreina, og hefur fult hús barna, en hann ætti að greiða 5 kr. í hallærisvarnir, eða einni kr. meira en umboðsmaðurinn. Þetta sjá allir að er hreinasta ranglæti, og svona lög má ekkert þing láta frá sjer fara. En svona er nefskatturinn, herrar mínir!

Það var sagt, að hjer væri um tryggingarsjóð að ræða. En í öllum tryggingarsjóðum fer gjaldið eftir því, hversu mikla eign menn tryggja þar. Sá, er metur líf sitt á 100,000 kr., greiðir 100 sinnum hærra gjald en sá, er tryggir það fyrir 1000 kr., sjeu báðir jafn gamlir. Og eins er það í búpeningssjóðum ytra. Og svo skildi jeg h. 6. kgk. þm. (G. B.), að hann væri þessu samþykkur.

Og hallæri gera meira tjón efnamönnum. Eignatjón þeirra er meira. Og eldgos eyðileggja jarðir þeirra. Þeir fátæku eiga opt ekkert, og hafa því ekkert að missa. Og þess ber að gæta, að sjeu skattarnir miklir, þá geta þeir orðið til þess, að fátækir menn komist á vonarvöl.

Jeg býst við því, að einhverjir segi, að jeg sje að tala fyrir kjósendur, en mjer er alveg sama um það, því eg tala af sannfæringu minni, og jeg álit, að það beri eins að taka tillit til hinna fátæku í löggöfinni. Og það er nú svo, að þeir efnuðu ráða, því þeir eru kosnir til alþingis, og þeir geta því sjeð um, að minni skattar lendi á þeim.

Jeg tek þetta fram, til þess að væntanleg nefnd geti athugað þessa hlið málsins, og vænti þess, að hún láti ekki gjald þetta koma ranglátlega niður, eða jafni því niður eftir ranglátum mælikvarða, eins og nefskatturinn er.