22.08.1913
Efri deild: 36. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 680 í B-deild Alþingistíðinda. (2034)

57. mál, girðingar

Þórarinn Jónsson:

Það er eitt atriði í 8. gr. frv., sem jeg vil minnast ofurlitið á. Þar er gert ráð fyrir, að jarðeigandi eða ábúandi geti gert girðingu á mörkum næstu jarðar, ef tún eða engjarjarðanna liggja saman, þótt ekki náist samkomulag um þátttöku í girðingunni við jarðeiganda þann eða ábúanda, sem á tún eða engi á móti, og að hann geti látið meta notagildi girðingarinnar fyrir báða, og fengið skift girðingarkostnaðinum eftir því. Nú vill nefndin einnig láta hið sama gilda, ef tún eða engi liggur að beitilandi annara jarða. Þetta er að vísu til bóta, en þó ekki fullnægjandi. Það getur verið full þörf á girðingu milli jarða, þótt ekki liggi saman aunað en beitilönd þeirra, og þekki jeg dæmi þess, svo sem þar sem bygt er kauptún í landi jarðar, og það fengið skák úr því með afmörkuðum landamerkjum. Þótt land kauptúnsins liggi aðeins að beitilandi hinnar jarðarinnar, þá má búast við, að hún verði fyrir litt bærilegum usla og ágangi af hinum mörgu ferðamannahestum, sem slept er í kaupstaðarlandið, og að ógerningur sje að fyrirbyggja það á annan veg en með girðingu.

Það er naumast hætt við, að kauptúnið geti orðið fyrir rangsleitni, þó það yrði, að leggja að sínu fram til girðingar, þar sem svona stendur á, eða það yrði til að ofþyngja því, þar sem jarðarábúandinn á að leggja fram hálfan girðingarkostnaðinn. Jeg vona, að h. n. athugi þetta nákvæmlega, og taki það til greina, ef hún sjer það fært.