01.09.1913
Efri deild: 43. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 743 í B-deild Alþingistíðinda. (2114)

81. mál, bæjarstjórn í kaupstaðnum Reykjavík

Sigurður Eggerz:

Jeg stend einungis upp í tilefni af því, sem hv. þm. N-M. sagði. Mjer skildist hann halda því fram, að það mundi ekki vera almennur vilji kjósenda hjer í bænum, að frv. þetta gangi fram. Jeg hef leitazt við að afla mjer upplýsinga um þetta efni, og eptir þeim er mjer óhætt að fullyrða, að þessi skoðun hins h. þm. er röng. Árið 1911 var tillaga um þetta efni samþykt hjer á 4 fundum, og eftir því sem skilvísir menn hafa sagt mjer, munu samtals hafa verið greidd um 1000 atkv. með henni, en einungis örfá á móti. Þetta sýnir, að það er almenn ósk bæjarbúa, að þeir fái sjálfir að velja sjer borgarstjóra. Og mjer finst það mjög eðlilegt, að þeir vilji ráða þessu sjálfir, því að það er enginn af starfsmönnum bæjarins, sem eins ríður á að sje vel valinn, eins og einmitt borgarstjórinn. Að því er snertir vilja bæjarstjórnarinnar, þá er það rjett, sem h. 1. kgk. sagði, að margir af þeim bæjarfulltrúum. sem ekki voru á fundi, þegar atkvæðagreiðsla fór fram um þetta mál, munu vera málinu fylgjandi. Jeg verð að játa, að mjer finst þær mótbárur, sem hafa verið bornar fram á móti frv., ekki þungar á metunum. 1. mótbáran og aðal mótbáran var sú, að verra mundi, að fá góðan mann til þessa starfa, ef bæjarbúar eiga að ráða kosningunni. En þetta held jeg að sje ekki rjett, því jeg get vel hugsað mjer, að bæjarstjórnin kynni líka að hafa einhvern skjólstæðing, sem ekki væri neitt sjerlega vel hæfur til starfans, og gæti þá svo farið, að kosningin mishepnast hjá bæjarstjórninni, og það er að minsta kosti ekki ástæða til að ætla, að valið takist ver, þótt kjósendur sjálfir eigi að velja borgarstjórann. Jeg held að það hafi verið hv. frsm., sem hjelt því fram, að það mundi meiri ástæða til að ætla, að borgarstjórinn færi eftir dutlungum bæjarbúa, ef hann ætti stöðu sína undir fylgi þeirra, en jeg held, að það sje ekki svo mikil hætta á því. En hitt þykist jeg vita, að bæjarbúar muni vilja velja sjer þann borgarstjóra. sem líklegur er til þess, að sinna rjettmætum kröfum þeirra. En það er mjög óheppilegt að borgarstjbrinn hagi sjer ávalt eftir því, hvað líklegast er til þess, að halda hylli bæjarstjórnarinnar, eins og eigi er ólíklegt, að hann mundi gera, ef hann ætti stöðu sína undir velþóknun hennar. Að því er snertir samanburð þann, sem gerður var á milli hreppsnefnda og bæjarstjórnarinnar, þá er þess að gæta, að hreppsnefndin er öll og því einnig oddviti hennar, kosin af hreppslimum, því að hreppsnefndirnar mega ekki kjósa sjer oddvita fyrir utan sinn hring.

Jeg lít svo, að í þessu máli mætist gamli og nýi tíminn, afturhaldið og framsóknin, skoðanir þeirra manna, sem vilja, að valdið sje í höndum fárra manna og hinna, sem vilja að fjöldinn ráði. Jeg hygg, að í þessu máli komi þessi stefnumunur skýrt fram. Og jeg ætla ekki að leiða neinum getum um það, hvernig þessi konungkjörna deild muni líta á málið, en jeg get hugsað mjer, að hún muni ef til vill hallast að gömlu stefnunni, en það mundi gleðja mig, og jeg vildi óska þess, að hún hallaðist heldur að nýju stefnunni og samþykti frv. þetta óbreytt.