05.09.1913
Efri deild: 47. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 812 í B-deild Alþingistíðinda. (2158)

1. mál, fjárlög 1914 og 1915

Einar Jónsson:

Jeg mun taka aftur br.tillögu mína á þgskj. 729, samkv. því loforði frsm., að nefndin muni koma með brtill. í sömu átt, eða um, að veita Borgarfjarðarhreppi 300 kr. til þess að ljetta kostnað við læknishjálp. Þá er þó greitt til muna fyrir þeim, sem verst eiga aðstöðu í læknishjeraðinu, og margir aðrir hjeraðsbúar geta haft not af ferðum læknis til Borgarfjarðar, ef þeir fá að vita um þær. En í sambandi við þetta vil jeg leyfa mjer að benda á, að í raun og veru er hjer ekki um nein ný útgjöld á fjárlögunum fyrir landssjóð að ræða, því að í 1. lið 12. gr. eru tilfærð öll lögákveðnu launin til læknishjeraðanna, hvort sem nokkur læknir er í þeim eða ekki. Þessi styrkveiting er því í raun rjettri ekki nema einn hluti þeirra gjalda, sem talin eru undir 1. lið 12. gr.

Þá vil jeg með örfáum orðum minnast á brúna á Jökulsá á Sólheimasandi. Enginn mun neita því, að mikil þörf er á henni og að æskilegt væri, að hún yrði gerð sem fyrst. En þess er að gæta, að hjer er önnur stór fjárveiting á döfinni, nefnilega hjer um bil 65,000 kr. til hafnargerðar í Vestmannaeyjum. Mjer virðist varla kleyft að veita tvær svona stórar fjárhæðir í einn til sama fjórðungsins, og ef um tvö fyrirtæki er að ræða, þó virðist Vestmanneyjahöfnin óneitanlega enn þá nauðsynlegri, þó að hvorttveggja sje nauðsynlegt. Jeg get því ekki greitt atkvæði með fjárveitingunni til brúarinnar að svo stöddu, þó að jeg feginn vildi. Hjer hefur mikið verið talað um, að þessi brú mundi verða í mikilli hættu fyrir vatnsflóðum, en mjer skilst, að henni geti ekki staðið nein verulegri hætta af öðru en Kötluhlaupum. Háttv. þm. V,-Skf. sagði, að hlaup hefði ekki komið úr Kötlu nema einusinni á þessum stað, en úr því að það hefur komið einusinni, þá getur það komið aftur. Og jeg skal ekki neita því, að það gerir mig talsvert ragari í þessu máli, að landsverkfræðingurinn álítur, að talsverð hætta sje með hana í slíkum hlaupum, og teflt sje á tvær hættur með brúna. Nú er langt síðan, að Katla hefur hlaupið, 53 ár, og er því hætt við, að hún hlaupi áður en langt liður, ef hún hagar sjer líkt og undanfarnar aldir. Væri ilt, ef þá væri nýbúið að brúa ána, því að ekki er ólíklegt að hún hlaupi sömu leið næst, eins og síðast.