08.09.1913
Efri deild: 49. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 992 í B-deild Alþingistíðinda. (2259)

1. mál, fjárlög 1914 og 1915

Einar Jónsson:

Jeg ætla ekki að tala langt mál. Jeg er þakklátur háttv. nefnd fyrir það, hve vel hún hefur efnt undirtektir sínar undir brtill. um læknisstyrkinn til Borgfirðinga frá mjer við síðustu umr, þessa máls. Og jeg sætti mig við þetta framlag, því að verst eru Borgfirðingar settir í Hróarstunguhjeraði, að því, er lækni snertir. Jeg ætla um leið að minnast lítið eitt á brúna á Miðfjarðará á Langanesströndum. Þessi á er oft mjög ill yfirferðar, að því er mjer er sagt, og hefur margan mann drepið. Í tíð þeirra manna, sem nú lifa, hafa druknað 3 menn, og áður er sagt að 16 menn hafi druknað í ánni, eftir því, sem menn vita bezt. Langt fram á sumar er hún venjulega ill yfirferðar, og það var hún í miðjum júlí í sumar. Þegar áin er óreið eða ófær á annan hátt, verður að ferja yfir ósinn, og er þá undir því komið, að gott sje í sjóinn. Nú er í ráði að leggja síma frá Vopnafirði norður til Húsavikur þessa leið, og verður þessi á þá mjög illur farartálmi fyrir eftirlitsmenn með símanum, ef hún verður óbrúuð. Landsverkfræðingurinn hefur talið það sjálfsagt, að brúa þessa á og Hólkná í einu, þar eð það yrði ódýrara, en brúa þær sína í hverju lagi, og þar sem eflaust liggur fyrir að brúa þær áður en langt um líður, þá er auðvitað æskilegt, að það gæti orðið sem fyrst. Jeg vil því óska, að þessi breytingartillaga nefndarinnar nái fram að ganga.