09.09.1913
Efri deild: 50. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 1018 í B-deild Alþingistíðinda. (2277)

99. mál, sala á landspildu til prestsins á Kolfreyjustað

Einar Jónsson, framsm.:

Jeg hef lítið annað að segja um þetta mál, en það sem stendur í nefndarálitinu. Þetta frv. er svo til orðið, að presturinn á Kolfreyjustað hefur sótt um að fá þessa landspildu, er ræðir um í frv., keypta. Hann mun ætla sjer að reisa þar hús fyrir sig og sína, og rækta þar upp blett í kring. Jeg er sjálfur ókunnugur á þessum stað, en hef spurt mig fyrir hjá nákunnugum manni, og það sem jeg nú segi, er því eftir annara sögusögn. Þessi spilda í Innri-Skálavík er með sjó fram góðan kipp fyrir utan Kolfreyjustað. Vikurnar Innri- og YtriSkálavík liggja hvor við annarar hlið, og er hin Ytri miklu meira verð, því að þar er báta-uppsátur, en ekki í Innri-Skálavík, því þar er engin lending. Landið á Kolfreyjustað er mjög stórt; einkum mjög mikil lengja út með sjónum. Það eru ekki nein líkindi til, að það verði Kolfreyjustaðarjörð til skaða, að missa þennan skika. Þar er sem sagt ekki bátauppsátur, og það eru engar líkur til, að presturinn taki það til ræktunar. Það væri þá helzt, að þar væri hentugt beitiland, en svo vill til, að ágætt beitiland er einmitt í Ytri-Skálavík og á svo nefndum landsenda þar fyrir utan. Gripir halda sig því tiltölulega litið í Innri-Skálavík, svo að þessu leyti stafar jörðinni engin hætta af því, þó þessi blettur sje seldur, og það því fremur, sem engin fjörubeit er á þessu svæði, sem fyrirhugað er að selja. Fjaran er stórgrýtt og flúðir miklar þar meðfram sjónum, þar sem fje fær eigi hafzt við. Málið hefur legið fyrir hjeraðsfundi Suður-Múlaprófastsdæmis, og hefur hann ekki sjeð neitt því til fyrirstöðu, að þessi skiki yrði seldur.

Nefndin hefur því ekki sjeð neina ástæðu til að leggjast á móti málinu, hyggur, að salan verði engum að meini, en þykir í gott, að bletturinn sje tekinn til ræktunar, og það sje hagur fyrir landið, að sem flestir blettir sjeu ræktaðir.