10.09.1913
Efri deild: 51. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 1105 í B-deild Alþingistíðinda. (2348)

97. mál, fátækralög

Einar Jónsson:

Það er ekki langt þetta frumv., og fer aðeins fram á eina breyting á fátækralögunum, og felst hún í því, að í frv. er fyrst og fremst ákveðið, eins og í núgildandi lögum, að dvalarsveit eigi heimting á af hálfu framfærslusveitarinnar 2/3 hlutum af styrk þeim, sem hin fyrnefnda hefur veitt þurfalingnum, nema svo standi á sem segir í 68. gr., en svo er bætt við: „eða þurfalingur eftir úrskurði læknis verður eigi fluttur á framfærslusveit sína sakir sjúkleika.“ Almenna ákvæðið í 63. gr. fátækralaganna er það, að dvalarsveitin borgi 1/3 af framfærslukostnaði þurfalings, hvernig sem á stendur, meðan hann er ekki fluttur á framfærslusveit sína. Orsakirnar til þess, að menn þurfa sveitarstyrk, eru margar, þar á meðal veikindi. Í 64. gr. fátækralaganna er talað um, að styrksþörfin geti verið svo brýn, að ekki fáist svigrúm til að leita þeirra skýrslna, sem heimtaðar eru. Það getur t. d. vel komið fyrir, að maður sýkist á ferð, en sje svo staddur, að hann geti ekki greitt legukostnaðinn sjálfur, og verði að leita til sveitar. Nú heimilar 69. gr. fátækralaganna dvalarsveitinni að flytja þurfaling á framfærslusveit hans, og framfærslusveitinni að heimta að hann sje fluttur, þegar hann hefur þegið 100 kr. styrk eða meira í dvalarsveit sinni, og bersýnilegt er, að hann sje kominn á stöðugt sveitarframfæri. Ef þurfalingurinn er þá svo veikur, að hann er ekki flutningsfær, þá skil jeg frv. greinina svo, að dvalarsveitin eigi að vera laus við að borga nokkuð af meðlagi þurfalingsins úr því, en eigi eftir sem áður að greiða þriðjung af kostnaðinum, hversu lengi sem sjúklingurinn kann að verða ófær til flutnings. En það er ekki í samræmi við greiðsluskyldu dvalarsveitarinnar í öðrum tilfellum. Þetta mun frv. eiga að laga, en það þarf að orða það ljósara og setja það í samband við 69. gr.

Í 77. gr. fátækralaganna er talað um, hvernig fara skuli að, ef þurfalingur er fluttur á sjúkrahús eftir læknisráði. Mjer sýnist greinin taka jafnt til þess, hvort framfærslusveitin eða dvalarsveitin hefur látið legga sjúklinginn á sjúkrahús, þá eigi framfærslusveitin ein að borga. En í þessu frv. mun vera að tala um sjúkling, sem ekki er lagður á sjúkrahús, en er þó eigi flutningsfær. Þetta þarf að vera tekið skýrara fram, og hvort sem nefnd verður sett í málið eða ekki, þá þarf að bera fram brtill. í þessa átt.