13.09.1913
Sameinað þing: 7. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 63 í B-deild Alþingistíðinda. (2488)

104. mál, heimild fyrir veðdeild Landsbankans að gefa út (serie) bankavaxtabréfa

Björn Kristjánsson:

Háttv. 1. þm. S.- Múl. hefur nú svarað svo mörgu af því, sem jeg annars hefði þurft að svara, og ætla jeg mjer því ekki að fara að taka það upp, sem hann sagði.

Ræða hins háttv. 6. kgk. (G. B.) var lík ræðu þeirri, er hann hjelt í gær í hv. Ed., þrungin af óvild til landsbankans og þó einkum stjórnar hans.

Hann fór að lýsa því, hve óheppilegar skoðanir minar hefðu verið í landsmálum, og nefndi til ritsímamál og járnbrautarmál. Skoðanamismunur minn á. símamálinu við andstæðinga mína var nú ekki meiri en sá, að jeg vildi semja við Marconi um þráðlaust samband hringinn í kringum land, og að leggja svo þræði inn til dala; þannig kemst alt landið þegar í símasamband, sem það er ekki enn komið. Og að semjandi hafi verið við Marconi, sýnir, að alt brezka ríkið hefur þegar samið við hann um þráðlaust samband.

Um járnbrautina er eflaust bezt að tala sem minst. Þjóðin mun svara. Þá sagði háttv. 6. kgk. þm. (G. B.), að allir væru óánægðir með fasteignalánskjör í landsbankanum, þar væru brjefin nú keypt á 90 eða 92%. Sama hjelt hann fram í háttv. Ed. En þetta eru bein ósannindi. Landsbankinn hefur ekki enn þann dag í dag keypt eitt einasta bankavaxtabrjef undir 94%. Og sjálf Danmörk eða Þýzkaland gerir fasteignalántakendum ekki svo góða kosti. „Deutsche Reichsbank“ lánar nú t. d. lán sín fyrir 7% gegn 1. veðrjetti í fasteign.

Og þegar þessi óánægja er með landsbankann; hversvegna tekur Íslandsbanki þá ekki í taumana og hjálpar fólkinu? Hann fjekk heimild til að gefa út bankavaxtabrjef 1905, alt að 6 miljónnm kr., en mun hafa aðeins gefið út 1 miljón. Hversvegna hjálpar hann ekki upp á sakirnar? Hann nýtur þó meiri rjettinda frá þinginu en landsbankinn, og hefur sömu skyldur við landsmenn að Iögum.

Og hversvegna minnist háttv. 6. kgk. þm. (G. B.) ekki á skyldur bankastjórnar þess banka ?

Og hvers vegna minnist háttv, 6. kgk. (G. B.) ekki á það, að sjálfri landsstjórninni hefur ekki tekizt að fá 250 þús. kr. lán til veðdeildarbrjefakaupa?

Síðan jeg hlustaði á ræður háttv. 3. og 6. kgk. (Stgr. J. og G. B.) í gær í þessu máli, hef jeg verið að brjóta heilann um, hvað því gæti valdið, að þeir voru svo óvinveittir bankastjórn landsbankans, og þá sjerstaklega mjer. Í þau skifti, sem þeir hafa leitað bankans, hefur þeim verið tekið með kurteisi, og ekki einungis með kurteisi, heldur og velvild.

Jeg finn því enga sök hjá mjer, þar sem jeg hef í engum illdeilum staðið við þessa háttv. þm., nema ef vera skyldi þá, að jeg er ekki þeirra flokksmaður, að jeg hef aðrar stjórnmálaskoðanir en þeir, að jeg hef ekki verið neitt stjórnarpeð, sem tefla mátti fram og aftur, til hliðar, og á ská og yfirhöfuð í hvaða átt, sem vera vildi.

Sje nú þetta orsökin, að landsbankinn, lífæð þjóðarinnar, eigi að líða fyrir þetta, sem jeg fullyrði ekki neitt um, þá er pólitíska ástandið orðið það forað, sem hver góður Íslendingur hlýtur að vilja losa sig við, og það sem fyrst.

Landsbankinn hefur reynt að greiða fyrir lántakendum eftir frekustu getu.

Í mínum augum eru jarðeignir beztu veðin, og er jeg sammála háttv. 6. kgk. þm. (G. B.) um það, en það er alls ekki víst, að útlendingar, sem kaupa eiga brjefin, líti svo á. Það er eins líklegt, að þeir telji hús í kaupstöðum betra veð, þar sem landið er þekt sem fiskiveiðaland, en eu ekki sem landbúnaðarland.

Viðvíkjandi því, að vísa málinu til stjórnarinnar til undirbúnings, þá getur verið, að háttv. 6. kgk. þm. (G. B.) þyki það bragðbetra, ef frumvarpið kemur þá leiðina, en jeg veit ekki til, að í stjórnarráðinu sje nokkur bankafróður maður, sem fær væri um að gera það betur úr garði.

Jeg sje ekki, að frv. græði neitt á því, að því verði vísað til stjórnarinnar. Það hefur verið sagt, að verið væri að bisa við að gera landið fjárhagslega ósjálfstætt með því að taka lán til 20–30 ára, Landið verður ekkert fjárhagslega ósjálfstæðara fyrir það, þó við tökum slík lán. Við verðum ekki háðari af þeirri ástæðu, ef við stöndum í skilum. Annað mál er það, ef við erum að velta stórfje inn í landið, sem segja má upp hvenær sem skal, eða færum að taka útlend lán til fyrirtækja, sem ekki geta borgað sig, eins og t.d. til járnbrautarinnar.

Jeg finn enga ástæðu til þess að svara háttv. 3. kgk.; það stendur alt óhaggað. sem hann var að mótmæla. Jeg vil að lokum benda á, að svo framarlega sem frv. verður samþykt, án þess að brtill. verði líka samþyktar, þá verður það slíkt ólán, að tæplega verður viðunandi; en að vísa því til stjórnarinnar, svo vel undirbúnu máli, væri mesta fásinna.