13.09.1913
Sameinað þing: 7. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 71 í B-deild Alþingistíðinda. (2494)

Þingslit

Að lokum ávarpaði forseti þingið á þessa leið :

Hver dómur, sem annars verður uppkveðinn um þetta þing, sem nú hefur verið háð, þá má það með sanni segja, að á því hefur verið unnið mikið, bæði í nefndum, og annars. Það liggur heldur ekki lítið eftir þingið. Fyrir utan fjárlögin, sem sjálfsögð eru, en stöðugt taka upp meira og meira af tíma þingsins, sjerstaklega neðri deildar, þá hafa verið samþykt mörg lagafrv., eins og sjá má af skýrslu þeirri, er jeg las upp, og sum þeirra eru mjög þýðingarmikil. Langfremst meðal þeirra verður auðvitað að telja stjórnarskipunarlagafrumvarpið. Það gerir ýmsar mjög þýðingarmiklar breytingar á stjórnarlögum vorum. Og þótt jeg búist við því, að fáir muni vera allsendis ánægðir með allar breytingarnar, þá hygg jeg, að flestir muni líta svo á, að þessi stjórnarlagabreyting sje, þegar á alt er litið, góð stjórnarbót. því er það trúa mín, að stjórnarbót sú, er þetta þing hefur gert, verði samþykt óbreytt á næsta þingi, og að þetta verk verði talið í reikningi þjóðarinnar til þingsins stór liður tekjumegin. En dóms þjóðarinnar um þetta er ekki langt að bíða.