12.09.1913
Efri deild: 53. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 1154 í B-deild Alþingistíðinda. (2511)

104. mál, heimild fyrir veðdeild Landsbankans að gefa út (serie) bankavaxtabréfa

Jeg hef athugað atkvæðafylgi frv. í Nd., og urðu 18 og 19 atkvæði með flestum breytingum og ekkert á móti, en ákvæðið um greiðslu á þessari 1% var samþ. með 17:5. Hv N.d. hefur líka gengið til móts við Ed. í því, að áður var ákveðið, að þessar % skyldu greiðast í hvert skifti, er eigandaskifti yrðu að veði, en nú hefur hv. Nd. sett inn í frv., að það skuli aðeins vera, er veðið gengur kaupum og sölum, en erfingjar undanteknir.

Á 860. þingskjali hafa tveir háttvirtar þingmenn komið fram með breytingartillögur.

Þar leggja þeir til.

1. að upphæð flokksins sje færð úr 5 miljónum kr. niður í 3 miljónir kr.

2. að veðdeildin hafi ekki rjett á, án þess lántakandi samþykki, að greiða lánin út með peningum, með þeirri upphæð, er hún hefur fengið fyrir brjefin, og

3. að ekki sje skylt að greiða 10% í varasjóð þegar eign er seld.

Þetta fer alt í sömu átt, og nefndin lagði til hjer við 2. umræðu, og þá var samþ. hjer í hv. deild með öllum atkvæðum eða svo. En eins og sakir standa, þá vill nefndin ekki keppa við hv. neðri deild hjer um, enda voru breytingar þessar samþyktar með miklum atkæðamun þar, og því síður vill nefndin gera það, eða meiri hluti hennar, þar sem hv. neðri deild hefur sýnt nokkra viðleitni til þess að koma til móts við okkur í þessu máli.

Það eru líkur til þess, eins og nefndin í neðri deild hefur haldið fram, að það mæli margt með því, að fá megi hærra verð fyrir bankavaxtabrjefin, ef mikið af þeim er selt í einu, eða ef allur flokkurinn er seldur í einu lagi. En vitaskuld verður það altaf álitamál, hvort það er hagnaður eða skaði í framtiðinni. Það kemur alveg undir því, hvernig vaxtabrjefin koma til að standa í framtíðinni. Ef verð þeirra færi lækkandi, þá er það hagnaður, en ef verð þeirra færi hækkandi, þá er það skaði. En um það er ómögulegt að segja. En á annan veg má telja það víst, að bankastjórnin fari varlega í því að selja brjefin, nema hún fái nokkuð gott verð, og þar sem samþykki stjórnarráðsins þarf að fá til sölunnar, þá er meiri trygging að því,. að svo verði. í sambandi við þetta er upphæðin í 1. gr., því það er litið svo á að hægra sje að semja um sölu á stórri upphæð en lítilli.

Um síðustu breytingartillöguna: að fella burt ákvæðið um, að kaupandi greiði 1% af lánsupphæð í varasjóð veðdeildarinnar, er hann kaupir eign, sem er veðsett veðdeildinni, þá vil jeg taka það fram, að þetta ákvæði nær ekki til þeirra lántakanda er altaf búa á sömu eigninni. Það snertir ekki aðra en þá, er kaupa eign, sem er veðsett í þessari 4. veðdeild. Og það er sá kostur á þessu ákvæði, að það styður að því, að varasjóður tryggist og aukist, og þeim mun öflugri sem varasjóður verður, þeim mun síður kemur til sameiginlegu ábyrgðarinnar. Þetta ákvæði er því að því leyti til hagnaðar fyrir veðdeildina og lántakendur sjálfa. Að ýmsu leyti er varasjóður hjer betur tryggður, en verið hefur í þeim þremur fl. veðdeilda, er hjer hafa verið og stendur það að nokkru. leyti í sambandi við sameiginlegu ábyrgðina, svo að síður sje hugsanlegt, að til hennar kasta þurfi að koma.