08.09.1913
Neðri deild: 54. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 2295 í C-deild Alþingistíðinda. (2564)

114. mál, íslensk lög verði eftirleiðis aðeins gefin út á íslensku

Lárus H. Bjarnason:

Eg er ósamdóma háttv. flutningamönnum og framsögumanni þessa frumvarps, af ástæðum, sem þegar hafa verið teknar fram, og býst jafnvel við, að hann meini annað en frumvarpsorðin lýsa. Eins og nú standa sakir, verður að þýða íslenzk lög á dönsku, og það getur ekki komið til nokkurra mála, að annar annist þýðinguna en ráðherra, af því að stjórnskipuleg ábyrgð verður að fylgja því verki.

En það finst mér aftur á móti bæði óviðfeldið og óþarft, að flytja danska þýðingu á íslenzkum lögum í íslenzkum stjórnartíðindum, enda er það hvergi áskilið í lögum vorum. 2. gr. laga 18. Sept. 1891 segir þvert á móti, að birta skuli þýðinguna í Danmörku. En til þess að koma því á, að íslenzk lög verði að eins birt á íslenzku á Íslandi, til þess þarf ekkert lagaboð. Stjórnin getur tekið það upp hjá sjálfri sér, og trúi menn henni ekki til að taka þá nýbreytni upp, þá nægir að skora á hana með þingsályktun að gera það.

Eg mun þó greiða frumvarpinu atkv. til 2. umræðu, en eingöngu í því skyni, að háttv. flutningsmanni eða öðrum gefist kostur á að koma því, sem fyrir mér vakir og hefir lengi vakað, í réttara form.