09.09.1913
Neðri deild: 55. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 2336 í C-deild Alþingistíðinda. (2579)

86. mál, aðflutningsbann á áfengi

Einar Jónsson:

Háttv. flutnm. er nokkuð seinn í tíðinni; hann hefði átt að vera á þinginu 1909. Þá hefði þessi tillaga hans verið frambærileg, þá var hún að nokkru leyti rétt, en nú a hún ekki við. Eg var hlyntur því 1909, að bannlögin, eins og þau lágu fyrir, yrðu borin undir þjóðina. Nú er alt öðru máli að gegna. Þjóðin hefir áttað sig á bannlögunum og felt sig við þau. Að minsta kosti hefir ekki, mér vitanlega, komið fram alment á þingmálafundum ósk um að afnema þau.

Hér við bætist enn eitt mikilsvert atriði, og það er það, að lögin eru enn óreynd. Látum þau reyna sig.

Jón sál. í Múla sagði, og það hafa margir aðrir mætir menn sagt, að það væri heimskulegt að afnema bannlögin fyr en þau væru reynd.

Háttv. flutnm. sagði, að kvenfólkið ætti ekki að hafa atkvæði um málið. Hvers Vegna ekki ? Er hann hræddur um, að kvenfólkið sé fylgjandi banninu? Mér er kunnugt um það, að konur eru skiftrar skoðunar um það mál, eins og karlmennirnir. Sumar eru með, sumar móti.

Eg vona, að tillagan fái þann byr, sem hún á skilið. Tillagan hefði ekki átt að koma fram, og helzt ætti faðir hennar að taka hana aftur, því að hún er ótímabær og sprottin af ókunnugleika.