09.09.1913
Neðri deild: 55. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 2348 í C-deild Alþingistíðinda. (2585)

86. mál, aðflutningsbann á áfengi

Jón Ólafsson:

Herra forseti! Eg er enginn þjóðaréttarfræðingur og ætla ekki að blanda mér inn í þetta háfieyga spursmál um exterrtorial-rétt.

Eg flutti hér á þinginu í fyrra rökstudda dagskrá, sem átaldi flutning áfengis í skip úr skipi, og þessa rökstuddu dagskrá samþykti deildin með miklum meiri hluta atkvæða. (Ráðherrann: Það hefði hún ekki átt að gera). Þetta var ekki stórvægilegt brot, en hvað um það, dagskráin var engu að síður samþykt, og eftir að deildin hafði látið í ljósi þessa yfirlýsingu, sem var beint til landsstjórnarinnar, þá getur engum dulist, að það er löðrungur í andlitið á þinginu, að leyfa mönnum að víkja enn frekara frá bannlögunum, heldur en þá var gert. Eg skal segja það um dönsku mælingamennina, að eg hefði gjarnan óskað að það stæði í lögunum, að þeir mættu flytja með sér vínföng til eigin þarfa. En þessu er ekki að heilsa. Það stendur ekki í lögunum, og þau eru skýr og ákveðin í þessu efni. Eg held að mig minni það rétt, að þegar Kristján Jónsson var ráðherra, hafi mælingamennirnir leitað leyfis til stjórnarinnar til að flytja með sér áfengi, en hann úrskurðaði, að það væri ekki leyfilegt. Hér eru tveir ráðherraúrskurðir í beinni mótsögn hvor við annan. Úr því að áður var kominn úrskurður í þessu máli, var það rangt að ganga á móti honum. Eg veit ekki betur, en að núverandi ráðherra hafi beðið um leyfi handa ræðismönnum til að flytja inn áfengi til eigin notkunar. Og mig minnir, þegar frumv. um viðauka við aðflutningsbannalögin kom fram, þá hafi hv. ráðh. lesið upp kafla úr bréfi frá frönsku stjórninni, og mig minnir að þar stæði, að hún gæti ekki borið neitt fyrir sig, af því að þetta væri unicum, þ. e. a. s. einsdæmi. Aðrar þjóðir telja sig ekki hafa rétt til að flytja hér inn áfengi. En stjórnarráðið hér þykist hafa rétt til að leyfa það. Hvað það snertir, hvað fram hafi farið í málinu, þá var á öllum áfengisílátunum orðrétt áteiknað:

»Flytjist tollfrítt

f. h. r.

E. Briem«.

Með þessu eru tollögin brotin líka. Eg veit ekki, hvaðan hæstv. ráðherra kemur heimild til þess að leyfa útlendingum að flytja tollfrjálst inn í landið tollskyldar vörur. Eg var á því upphæfilega, að rétt væri að láta vera samfara aðflutningsbann og sölubann. En fyrst að svo er ekki, verður ekki fengin full reynala á lögunum fyr en 1915. Það er barnaskapur, frá hvaða sjónarmiði sem það er skoðað, að vera að reyna til að ónýta lögin nú. Eg get því ekki Verið með þingsályktunartillögu háttv. samþingismanns míns, 2. þingm. S. Múl. (G. E.), því að mér finst það vera alla vega jafnóréttlátt að afnema lögin áður en fengin er full reynsla fyrir því, hvernig þau gefast.