13.09.1913
Neðri deild: 59. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 2524 í C-deild Alþingistíðinda. (2683)

127. mál, skipun nefndar í slysfaramálum

Halldór Steinsson:

Það er öllum kunnugt, hve slysfarir eru tíðar á þessu landi. Eg ætla mér ekki að romsa neinar tölur upp til að sýna það. Það er enn fremur öllum ljóst, að mannslífið er dýrt og sjálfsagt ekki ódýrara hér en víða annarstaðar. Eg ætla mér ekki að verðleggja það, enda yrði slíkt mat ónákvæmt og komið undir, í hvaða landi og jafnvel hvaða héraði, maðurinn á heima. En það er víst, að mannsífið er dýrt. Þess vegna er fylsta þörf á að reyna að draga úr slysförum, ef nokkur tök eru á því. Og verð eg að álíta þessa tillögu spor í þá átt. Menn munu ef til vill segja, að þessi nefnd sé óþörf, að mönnum séu þegar kunnar orsakir til slysfara hér á landi og við land, en það er mesti misskilningur. Mönnum er að vísu kunnugt um flestar drukknanir hér við land, en gera sér að jafnaði ekki glögga grein fyrir, hvernig druknanirnar ber að höndum. Hér er verkefni nefndarinnar. T. d. væri mikils vert að fá Skýrslur um, hve margir eru syndir af þeim sem drukka. Ef sú yrði nú niðurstaða nefndarinnar, að þeir kunni fæstir sund, sem drukka, eins og eg er sannfærður um, þá er verkefni nefndarinnar að koma með tillögur um sundkenslu, en sú íþrótt hefir verið vanrækt alt of mikið hjá oss til þessa. Eg hefi séð báta farast í lendingu, og menn drukna á svipstundu, beinlínis af því að menn hafa ekki kunnað sundtökin. Þetta er svo mikilsvert atriði, að sjálfsagt er að taka það til rækilegrar íhugunar. Fyrir fermingu er lögskipað, að börn kunni svo og svo mikið í ýmsum námsgreinum. Ætli það væri ekki eins holt að þau kynnu að synda og sleptu einhverri námsgreininni, eða mundi ekki kleift að binda það skilyrði fyrir lögskráningu háseta, að þeir kynnu sund?

Þetta er eitt verkefnið.

Þó að nú nefndin gerði ekki ráðstafanir til að fyrirbyggja meira en 3–4 druknanir á ári, verð eg að álíta þeim peningum vel varið, sem til hennar ganga. Þess vegna vil eg styðja þingsályktunartill. og greiða atkvæði á móti dagskránni.