28.07.1913
Neðri deild: 20. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 456 í C-deild Alþingistíðinda. (350)

3. mál, fjáraukalög 1912 og 1913

Framsögum. (Pétur Jónsson):

Þótt nefndarálitið sé stutt, skal eg leyfa mér að skírskota til þess um tillögur nefndarinnar, því að það er verkdrýgra að eg bíði átekta og tali ekki mikið um málið að svo stöddu, áður en háttv. þingdeildarmenn hafa látið í ljósi álit sitt. Eg ætla að eins örlítið að drepa á fáeinar br.till.

5. br.till. Viðvíkjandi gagnfræðaskólanum á Akureyri er bygð á því, að búið er að brúka hátt á 4. þús. krónur af þessari upphæð sem á frumv. stendur, en aftur á móti ekki útlit fyrir að gert verði neitt verulegt við skólahúsið í haust; til þess vantar bæði tæki og efni. Nefndinni virtist því ekki ástæða til að veita meira fé á fjáraukalögum, en þegar er búið að brúka, og hefir hún því eftir samráði við skólameistarann, sem hér er staddur eins og menn vita, lagt til að fjárveitingin verði minkuð um kr. 4188.00. Það er ekki meiningin að minka tillagið til að gera við skólahúsin, heldur að eins færa það til fjárlaganna fyrir 1914–1915.

Þá er 8. br.till. Jakob Björnsson síldarmatsmaður á Siglufirði hefir kvartað til þingsins um, að hann hafi verið vanhaldinn af styrk, þeim sem veittur var 1910 til utanfarar tveggja síldarmatsmanna. Hann segir svo frá, að það hafi verið samkomulag milli sín og þáverandi ráðherra, að hann fengi ekki nema 200 kr. í svipinn, en kveðst hafa búist við að sér yrði bætt það upp seinna með 400 kr. viðbót, svo að hann yrði jafn hinum síldarmatsmanninum, sem fekk 600 kr. Það hefir nú farist fyrir að kippa þessu í lag á þinginu 1911, að líkindum vegna veikinda fyrv. ráherra (B. J.). Nefndin álítur rétt að leiðrétta þetta og veita honum 200 kr. viðbót, svo að hann fái helming þeirrar fjárveitingar, sem upphaflega var ætluð síldarmatsmönnunum báðum.

Þá er 12. br.till. nefndarinnar við 9. gr., sú, að 3. liður — söluheimildin á prestaskólahúsinu — falli burt. Það er ekki svo að skilja, að nefnd. sé ekki stjórninni sammála um það, að rétt sé að selja þetta hús. Það er einmitt ekki ástæða til þess, að nota lóð á þessum stað í bænum undir opinberar byggingar, en hins vegar álítur nefndin, að heppilegra muni vera að draga að selja húsið, því að eftir því sem hafnargerðinni miðar áfram, eru líkur til að verð á lóðum muni hækka í miðbænum. Þess vegna vildi nefndin fella þessa athugasemd burt úr frumvarpi stjórnarinnar í þetta skifti.

Loks er breytingartillagan um að fella niður fjárveitinguna til viðbótarbyggingar við pósthúsið. Hún er ekki til orðin af því, að nefndin hafi á móti því, að það þurfi að bæta við pósthúsið, en nefndinni þótti ekki ástæða til þess, að setja þann kostnað á fjáraukalögin, með því að ekki eru líkur til þess, að teljandi verði unnið að því verki fyr en eftir næsta nýár. Þó er nefndinni þetta ekkert kappsmál, og skal eg því ekki fjölyrða um það.