29.07.1913
Neðri deild: 21. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 503 í C-deild Alþingistíðinda. (372)

76. mál, landssjóðsábyrgð á sparifé og innlánsfé Landsbankans

Lárus H. Bjarnason:

Hv. þm. Borgf. (Kr. J.) kvartaði undan því, að á hann hefði verið borin sú Sök að ófyrirsynju, að hann hefði ekki svo sem skyldi borið hag Landsbankans fyrir brjósti, meðan hann var ráðherra. Þó að hann nefndi ekki nafn mitt, þá skildist mér hann þó beina orðum sínum að mér. Eg sagði ekki annað, en að stjórnin hefði ekki virst hliðholl bankanum, þar Sem hún árið 1911 notaði hann þá ekki til þess, að ávaxta fé landssjóða. Þetta ætla eg að reyna að standa við. Skal eg með leyfi forseta lesa upp athugasemd yfirskoðunarmanna landsreikningsins 1911 við þetta atriði, svo og svar landstjórnarinnar. Athugasemdin er þannig:

“Samkvæmt svari Landsstjórnarinnar við 56. aths. við landsreikninginn 1910 hafði Landsbankinn það ár verið notaður allra banka mest til geymslu fjár landssjóðs. 1911 hefir Landabankinn aftur á móti ekki verið notaður. Með því að eðlilegast er, að landstjórnin noti banka landsins um fram aðra banka að öðru jöfnu, er spurst fyrir um, hví Landsbankinn hefir alls eigi verið notaður 1911„.

Svar landstjórnarinnar er ekki með öllu óloðið. Það hljóðar svo:

“Árið 1911 var sjaldnast nokkurt fé fyrir hendi í landssjóði, sem látið yrði á vöxtu, og síðast á árinu varð landssjóður að taka lán, sem var að minsta kosti þrisvar sinnum hærra en tekjueftirstöðvarnar í landsreikningnum. Og þetta var ekki ófyrirsynju, því að í Janúar 1912 var víxilskuldin orðin 5 sinnum eins há og eftirstöðvarnar á tekjunum voru í árslok„. Þó að svar landstjórnarinnar sé ekki skýrara en þetta, þá er það ljóst, að Landsbankinn var ekki notaður 1911. Eg þykist viss um, að það hefir ekki verið af því, að hv. þáverandi ráðherra hafi borið óvild til Landabankans, enda sagðist hann bera hag bankans mjög fyrir brjósti og hafa varið beztu kröftum sínum honum til eflingar. Á þetta skal eg ekki bera neinar brigður, þó að eg geti, hins vegar, ekki búist við því nú, að honum renni jafnheitt blóðið til skyldunnar um Landsbankann sem um hinn bankann.

Viðvíkjandi því sem þeir sögðu, hv. þm. S.-Þing. (P. J.) og h v. ráðherra (H. H.), að landssjóður þyrfti að hafa fé á reiðum höndum til tryggingar sparisjóðseigninni, ef frv. þetta yrði að lögum, þá skal eg játa, að einhver trygging verður að vera fyrir sparisjóðs-innstæðu manna, verði varasjóðafé Landsbankans slept við hann sem veltufé. En mundi ekki ábyrgð landssjóðs nægileg trygging? Hún mundi nægileg trygging fyrir aðal-hættu allra banka, sem sé aðsúgi að bankanum út af hræðslu við stjórn hans, en hins vegar hrekkur engin trygging gagnvart hættu, sem stafar af óviðráðanlegum atburðum, svo sem af eldgosum, jarðskjálftum og öðru þess háttar.

Eg tók eftir því í landsbankareikningnum, að rekstrarkostnaðurinn er orðinn nokkuð hár, talsvert hærri en áður. Að vísu liggja vafalaust eðlileg rök til þessa, því að auk þess sem háttv. þm. S.- Þing. (P. J.) mintist á — eftirlaunanna til fyrrv. bankastjóra Tryggva Gunnarssonar, sem eg verð að telja makleg he8r Landsbankinn orðið að bæta á sig ýmsum öðrum kostnaði, svo sem meira en tvöfalt hærri launum til bankastjórnar og tvöfaldri upphæð til landsféhirðis. (Ráðherrann: Það er á fjárlögunum). En þótt svo sé, þá er hækkunin nokkur fyrir því, og þar sem bankanum hefir verið legið á hálsi fyrir þetta, þá væri æskilegt að heyra gerða grein fyrir hækkuninni. Vænti eg að bankastjórinn, háttv. 1. þm. G.-g. (B. Kr.) telji sér skylt að gera það.

Út af því sem háttv. 2. þingm. G.-K. (Kr. Dan.) beindi til mín — eg skildi þann svo, þó að hann nefndi ekki nafn mitt — þá var það aldrei meining mín, að landssjóður ætti ekki að ábyrgjast seðlana ef bankinn færi um koll. Eg átti við lifandi banka en ekki látinn, átti við það, að utan skifta á búi bankans, hefir landssjóður, að lögum, enga ábyrgð á veltufé bankans, ekki. heldur á seðlum hans umfram það, að hann verður að taka við þeim í opinber gjöld.

Að svo mæltu vona eg að frv. fái að ganga til 3. umræðu, svo að málið verði sem bezt rannsakað og rætt. Eftir niðurlagsorðum í ræðu hæstv. ráðherra: bankans hagur er landsins hagur, ættu allir að telja sér skylt að klifa þrítugan hamarinn til þess að bæta hag bankans svo sem kostur væri á. Að minsta kosti er vonandi, að háttv. stjórnarflokksmenn minnist orða hv. ráðherra við atkvæðagreiðsluna.