30.07.1913
Neðri deild: 22. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 582 í C-deild Alþingistíðinda. (412)

5. mál, tekjuskattur

Framsögum. meiri hl. (Ólafur Briem):

Það hefir verið talað um þetta mál jafnframt inu næsta á undan, svo að þess gerist líklega ekki þörf, að fara mikið út í það nú alment. Að eins vildi eg fyrir nefndarinnar hönd gera stuttlega grein fyrir br.till. á þgskj. 181. Þær eru 14 talsins, en af þeim eru 2.–6. og 11.–13. tillagan að eins orðabreytingar. Efnisbreyting er aftur á móti 1. tillagan við staflið c í 2. gr., þar sem lagt er til að slept sé undan skattskyldu landskuld af leigujörðum o. fl., svo og leigu eftir hús og lóðir. Þessi breyt.till. verður til þess að létta skattinn, og hefir nefndin orðið þess vör, að ýmsum hefir vaxið þetta í augum. En þar sem þessi skattur yrði tekinn af alveg sömu eigninni, sem annars er ætlast til að hvíli á sérstakur fasteignaskattur, þá væri þetta til þess að skatta þá sömu eign tvisvar sinnum, og þess vegna vill nefndin láta fella þetta burt úr tekjuskattslögunum.

Þá koma 2 aðrar br.till. í tölulið 7 og 8, sem báðar miða að því að auka frádrátt frá skattskyldum tekjum. Önnur er sú, að færa upp í 100 kr. framfærslueyri fyrir heimilisómaga, en hin sú, að ekki megi einungis draga frá fyrir heimilisómaga, eins og nú er gert ráð fyrir í 3. gr. frumvarpsins, heldur og fyrir aðra skylduómaga, þótt utan heimilis séu. Þetta eykur nú talsvert frádráttinn, og í sambandi við það höfum við þess vegna lagt til að breyta 4. gr. þannig, að lágmark skattskyldra tekna sé fært úr 500 kr. niður í 300 kr. Það má vera því lægra, sem mönnum er vilnað meira í með hinum breytingunum, og það jafnar þær upp.

Önnur breyt.till. Við 4. gr. fer fram á það, að tekjuframtal af landbúnaði sé miðað við almanaksár, eins og framtal á öllum öðrum tekjum samkvæmt þessu frumvarpi, en ekki við fardagaár. Það ættu ekki að verða vandkvæði á þessu, og það er meiri Samkvæmni í því.

Loks er 6. efnisbreytingin, undir tölulið 14, við 11. gr. Sú grein skyldar heimilisráðendur til þess að greiða tekjuskatt fyrir heimilismenn sína gegn endurgjaldi frá þeim. Nefndin hyggur að þetta mundi geta bakað húsbændunum óþægindi, og einstöku mönnum jafnvel tilfinnanlegt fjártjón, og að óþarfi sé að leggja slíka kvöð á húsráðendur, í stað þess að láta hvern greiða skattinn fyrir sig. Hún leggur því til að 11. gr. falli burt.

Hefi eg svo ekki frekara um þetta að segja.