30.07.1913
Neðri deild: 22. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 586 í C-deild Alþingistíðinda. (415)

6. mál, skattanefndir

Framsögum. meiri hl. (Ólafur Briem):

Þetta frumv. er að miklu leyti samhljóða gildandi lögum, verksvið skattanefndanna er einungis gert víðtækara, þar sem þeim er falið á hendur jarðamatsstarf og virðingar á öðrum fasteignum. Að öðru leyti get eg skírskotað til nefndarálitsins.

Af þeim 23 breyt.till., sem nefndin hefir leyft sér að koma fram með, eru einar þrjár efnisbreytingar, það eru 1., 4. og- 5. breyt.till. Hitt eru einungis smávægilegar orðabreytingar.

Fyrsta efnisbreytingin er sú, að yfirskattanefndir skuli ekki skipaðar ævilangt, eins og frumv. ætlast til, heldur að sama regla gildi um starfstíma þeirra og undirskattanefndanna. Að þessu þarf ekki að eyða neinum orðum.

Önnur efnisbreytingin er við 5. gr. Svo hljóðandi málagrein er feld burtu: “Skattanefnd getur kvatt sérfróðan mann sér til aðstoðar við Virðingargerðir ef þörf krefur„.

Nefndin leit svo á, að það mundi leiða af sjálfu sér, að skattanefndirnar leituðu sér nauðsynlegra upplýsinga til þess að geta leyst verk sitt sem bezt af hendi, og það gætu þær gert án þess að kveðja sérstaka mann sér til hjálpar. En ef þessi heimild stæði í lögunum, gæti það leitt til þess , að skattanefndirnar freistuðust til að yfirláta starfið öðrum, og það mundi hafa aukakostnað í för með sér.

Þriðja efnisbreytingin er við 6. gr. og lýtur að því, að yfirskattanefndir leiti álits skattanefndar áður en þær fella úrskurð um kærur, sem kunna að koma fram út út af virðingargerðum. Frumvarpið tekur ekkert fram um þetta. Stjórnin hefir líklega lítið svo á, að yfirskattanefndir mundu alt af, svo framarlega sem málið væri þeim ljóst, leita álits hlutaðeigandi skattanefndar um það, þó að það væri ekki beinlínis lagaskylda. Nefndinni fanst þó vissara að taka þetta upp í frumvarpið.

Sem sagt, þá eru efnisbreytingarnar ekki fleiri. Um orðabreytingarnar þarf eg ekki að tala.