31.07.1913
Neðri deild: 23. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 612 í C-deild Alþingistíðinda. (420)

74. mál, járnbrautarlagning

Bjarni Jónsson:

Sumir þeirra hv. þm., Sem talað hafa, hafa haldið því fram, að þetta væri prófsteinn fyrir trú manna á framtíð landsins. Eg hygg nú, að því sé ekki svo farið, því að þetta mál, er ekki annað en frv. um að veita stjórninni heimild til að veita mönnum einkaleyfi til járnbrautarlagningar. Þó að járnbrautarmálið sé prófsteinn á trú manna á framtíð landsins, þarf þetta frv. alls ekki að vera það. Það getur verið svo úr garði gert, að þeir sem járnbrautarmálinu eru hlyntir, geta verið á móti þessu frumv. Þessi orð háttv. þm. geta því valdið misskilningi. Eg er samdóma háttv. þm. Vestm. (J. M.) í því, sem hann sagði, að nauðsynlegt væri að bæta samgöngur innanlands. Sömuleiðis get eg skrifað undir það sem aðrir háttv. þm. hafa sagt í því efni, nema þar sem hv. 1. þm. S.-Múl. (J. Ól ) var að bera saman samgöngur á sjó og landi. Það var öfugt, en vegna þess að það kemur ekki þessu frumv. við, skal eg ekki fara meira út í það. En þessar samgöngubætur á landi þurfa ekki nauðsynlega að vera bundnar við járnbraut. Það getur hugsast að bifreiðir eða rennireiðir geti bætt úr vandræðunum eins vel. Eg segi ekki að svo sé, en það þarf að rannsaka áður en málinu er ráðið til lykta. Svo mikið er víst, að notkun þessara flutningatækja fer sívaxandi og dregur mikið frá járnbrautunum. Eg vildi gjarnan fá upplýsingar um það, hversu hagar til þar sem þessar rennireiðir eru notaðar og hversu mikið það mundi kosta að búa hér til vegi, sem gætu borið þann þunga, sem útheimtist til þess. Það getur verið að hér að lútandi skýrsla liggi hjá stjórnarráðinu, en ekki hefir þótt ástæða til að taka hana með hingað. Þó hygg eg málið órannsakað og þætti mér rétt, að landsverkfræðingurinn, Jón Þorláksson, væri látinn rannsaka þetta mál áður en nokkurar ákvarðanir eru teknar um járnbrautarmálið.

En jafnvel þótt járnbraut væri það eina, sem okkur gæti komið að haldi í þessu efni og þótt eg væri þeirrar skoðunar, þá er ekki þar með sagt, að eg væri fylgjandi þessu frumv., sem nú liggur fyrir. Í fyrsta lagi er það athugandi. hvort réttara sé að veita félagi einkaleyfi til þessa fyrirtækis, en að láta landið sjálft reka það. Það er reynsla allra landa, sem hafa haft einkabrautir, að erfitt hefir gengið að ná þeim aftur úr höndum félaganna. Samt sem áður hefir það þótt tilvinnandi að leggja mikið í sölurnar til þess, því að það hefir þótt borga sig betur, að ríkið ræki slíkt fyrirtæki sjálft heldur en landsmenn. Til þess liggja margar ástæður, sem eg skal ekki fara að rekja hér, því að þær eru öllum komnar. En þótt eg vildi ganga að því, að slíkt leyfi yrði veitt, þá vildi eg að því yrði komið fyrir á alt annan hátt. Þar með er ekki sagt, að það geti nokkurn tíma litið svo út, að eg kjósi ekki heldur að landið sjálft reki fyrirtækið.

Í frumvarpinu er leyfð landssjóðsábyrgð fyrir 51/2% af stofnfénu auk rekstrar og Viðhalds kostnaðar í 75 ár. Engin takmörk eru hér sett. Landið getur enga tilsjón haft með því, hvernig reksturinn fer fram — hvort ekki sé hægt að hafa alt of marga, of dýra, óþarfa starfsmenn, þar sem engar skorður eru settar til þess að sparlega sé á haldið. Og þótt svo sé ákveðið, að landsstjórnin geti fyrir mælt, hve hátt verðið megi vera á hverju stikuþúsundi brautarinnar, þá sé eg ekki að þetta ákvæði bæti mikið úr, heldur þvert á móti. Menn gætu séð um sinn hag mest, unnið verkið því ver, þannig að brautin mundi slitna fyr og áhöldin skemmast, og fleira væri hægt að gera landinu til tjóns án þess að það kæmi í bága við fyrirmæli laganna.

Eg hygg líka réttast að gera ráð fyrir, að leyfishafendur líti aðallega á hinn hag, og þá þyrfti að vera betur um hnútana búið, en hér er gert, ef trygging landssjóðs á ekki að verða misbrúkuð.

Þá er félaginu gefin allrífleg heimild til landnáma; það á að vera undanþegið sköttum og tollum, fá að “konkurrera„ við landsímann o. s. frv,

Háttv. þm. Sfjk. (V. G.) hefir því miður tekið þetta alt fram, svo að eg þarf ekki annað en nefna það, því að eg er honum alveg samdóma í því efni.

Félagið á að hafa forgangsrétt fyrir öðrum til þess að leggja allar aðrar járnbrautir á landinu í sambandi við aðalbrautina. Hvort landið sjálft fellur undir þetta ákvæði, er ekki tekið fram. En ef svo er, þá virðist mér það allvarhugavert. Ef sterkir peningamenn væru öðru megin, þá gætu þeir fengið umráð yfir öllum járnbrautum á landinu og hagnýtt sér þau svo, að þeir næðu öllum atvinnumálum landsins í sínar hendur. Það er ekki ósennilegt, að sumir vildu vinna mikið til þess, að leggja landið þann veg undir sig í orðsins fylsta skilningi.

Þá er ákveðið, að einkaleyfið skuli að eins veitt íslenzkum mönnum, eða að minsta kosti skuli meiri hluti stjórnarinnar vera íslenzkir menn. Verði þetta samþykt, þá væri hægt að selja félagi, sem í raun og veru væri alútlent, þetta einkaleyfi, og kæmi þá fram líkt og menn voru óánægðastir með í silfurbergsmálinu forðum. Eg segi ekki, að þetta hafi verið ætlun flutningamanna. Það getur stafað af aðgæzluleysi. En að minsta kosti þarf hér að reisa skorður við.

Það sem landinu er hina vegar áskilið, er miklu minna um vert, og verð eg þar að vera á sama máli og minn kæri vinur, þingm. Sfjk. (V. G.). En það sem eg vildi sérstaklega benda á, er þetta um rétt landssjóðs til að taka að sér brautina og rekstur hennar eftir 10 ár, fyrir það verð, sem brautin með öllu tilheyrandi kostaði í upphafi. Þetta þykir mér heldur ill kjör fyrir landið. Það er ekki víst, að brautin hafi verið eina vel gerð frá upphafi eina og verða mátti, og þar að auki má gera ráð fyrir töluverðu sliti eftir 10 ár eða meira. verðið ætti þess vegna að vera undir öðru komið, mati eða virðingu, ef slíkt ætti fram að ganga á annað borð. Þess vegna verð eg að vera á þeirri skoðun, að landið eigi alt of mikið á hættu, og að of mikið sé heimtað af landinu gegn því sem það fær í staðinn. En hvers vegna er verið að gera ráð fyrir að láta þetta einkaleyfi til einstakra manna? Getur ekki landið sjálft tekið að sér að leggja þessa járnbraut? Eg skil ekki, að lánstraust landsins sé svo lítið, að ekki sé hægt að fá peninga til þessa fyrirtækis með svo aðgengilegum kjörum sem þessi eru. Einstakir menn eða félög leggja ekki út í slík fyrirtæki í öðru skyni en að græða á þeim. Ef eg fæ einkaleyfi til járnbrautarrekatrar í 75 ár, þá hangi eg alt af á fyrirtækinu, ef eg fæ landssjóð til að ábyrgjast það, en ef landið sjálft rekur fyrirtækið og sér, að það ber sig ekki, þá getur það hætt og lagt alt niður ef illa fer. Eg vil nú ekki spá því, að svo fari um þetta fyrirtæki, að það beri sig ekki.

Eg spái því þvert á móti, að landinu sé fullkomlega óhætt að gera þennan járnbrautarspotta. Eg býst við, að fyrirtækið gæti eftir ein 10–15 ár borgað vexti og árlegar afborganir, og eftir nokkra áratugi þar frá verið búið að borga alt saman. Eg held að þetta sé svo gott fyrirtæki, að landinu sé óhætt að reikna það gróða-fyrirtæki. Og þá munu menn segja, að ekki þurfi að koma til þessarar ábyrgðar landssjóða gagnvart leyfishafa, ef fyrirtækið sé svo gott.

Hvað segðu menn, ef Sameinaða gufuskipafélagið t. d. legði þessa járnbraut og næði þannig undir sig samgöngunum á landi, og héldi jafnhliða áfram skipaferðunum? Það mundi gefa afslátt á flutningi þeirrar vöru, sem fara ætti með þess eigin skipum. En er við færum svo að hokra með okkar eigin skip, þá myndu þeir taka fult verð fyrir flutning þeirrar vöru, sem ætti að fara með þeim. Þetta gæti orðið laglegt net fyrir okkur með tímanum, ef vel væri um búið, og er því varhugavert að hrapa að þessu máli. Og það ætti að vera okkur sjálfrátt, að hafa samgöngurnar á sjó og landi í okkar eigin höndum, en ekki í höndum hinna og þessara félaga eða einstakra manna.

Þessar aðfinslur minar eiga í rauninni ekki við járnbrautarmálið sjálft, heldur við þetta mál, sem hér liggur fyrir. En hvað sem því líður, þá finst mér sjálfsagt að setja málið í nefnd, því að það á það fullkomlega skilið, að um það sé fjallað sem bezt. Hvort betri sé 7 manna nefnd eða 5 manna, læt eg ósagt og skifti mér ekki af því.

Eg skal svo ekki orðlengja þetta frekara, þótt eg hafi löngun til að tala nokkur orð um árás hv. 1. þm. S.-Múl. (J. Ól.) á þá menn, sem hann kallaði hallæriskrákur, en eg held að eg verði að láta það bíða þangað til annað tækifæri gefst. Honum ætti ekki að vera ofætlun að muna árið 1882, þegar hafís bakaði landinu hallæri. (Jón Ólafsson: Það var ekki hallæri). Jú, það var hallæri. Þá féll búpeningur landsmanna unnvörpum, og þó að fólkið dæi ekki úr hungri, þá var það af því að menn lifðu á gjafakorni og gjafafé. Meðan þm. er ekki betur að sér, ferst honum ekki að tala digurbarkalega um þekkingarleysi á sögu landsins.