04.07.1913
Neðri deild: 3. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 29 í C-deild Alþingistíðinda. (5)

3. mál, fjáraukalög 1912 og 1913

Lárus H. Bjarnason:

Auk þeirra atriða, sem hv. ráðherra mintist á, hefi eg rekið mig á nokkrar upphæðir, sem mér finst orka tvímælis um, hvort séu nauðsynlegar.

Í 5. gr., seinasta lið, er farið fram á 750 kr. veitingu til aukakenslu við kennaraskólann. Eg hygg að þessi greiðsla sé endurgjald eða greiðsla launa handa manni fyrir að gegna embætti 1. kennara skólans, sem hefir sýkst og orðið að leita sér lækninga í framandi landi. Þessi tillaga er að vísu falleg, og þessi maður á hana öðrum fremur skilið. En eg vildi að eina vekja athygli á því, að sé vikið inn á þessa braut með embættismenn, þá þarf að gera eins við aðra.

Í 6. gr., seinasta lið, er farið fram á 1000 kr. styrk til Kvennréttindafél. Íslands til að senda fulltrúa á kvennréttindafund í Budapest. Eg býst nú við, að margir séu mér sammála um það, að þessi greiðsla sé ekki nauðsynleg. Það hefði minsta kosti verið viðkunnanlegra að þessi upphæð hefði ekki verið greidd úr landssjóði án þess að ráðherra bæri sig saman við þingmenn eða flokksstjórnir. En eftir því sem mér er tjáð, hefir ráðherra ekki einu sinni borið þetta undir miðstjórnir þeirra flokka, sem hann hefir stuðst við til þessa.

Þá er í 9. gr., 1. lið, farið fram á 654 kr. til greiðslu á ferðakostnaði nokkurra þingmanna, sem hægast var að ná til og kvaddir voru saman til að láta uppi álit sitt um tilboð, sem ráðherra hafði fengið hjá Dönum út af málaleitun Við dönsku stjórnina um sambandsmálið. Satt að segja held eg að það hefði verið réttast að spara fjárveitinguna og þingmönnum ómakið.

Sömuleiðis er í sömu gr. farið fram á 5000 kr. til að endurgjalda Sameinaða gufuskipafélaginu vörugjald af kolum, sem skip þess taka hér á landi. Mér og öðrum þótti kostir félagsins svo þröngir, að ekki hefði átt að leggja því þessa aukagetu án dóms.

Mér þykir þessi 4 atriði nokkuð vafasöm og býst við, að um þau verði skiftar skoðanir. Annars fýsir mig ekki að fara að kappræða þau, sízt að svo stöddu, en hefi að eins tekið þetta fram til athugunar fyrir Væntanlega nefnd.