05.08.1913
Neðri deild: 26. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 751 í C-deild Alþingistíðinda. (558)

85. mál, lögreglusamþykkt og byggingarsamþykkt fyrir Vestmannaeyjasýslu

Flutningsm. (Lárus H. Bjarnason):

Frumvarp þetta er gamall og góður gestur hér á þingi, og þarf því eigi á þessu stigi málsins að ræða mikið um það. Samt vildi eg með örfáum orðum gera grein fyrir aðal-ástæðum þess. Og er þá þess fyrst að geta, að það virðist eðlilegt og rétt, að bæjarmenn ráði allri skipun bæjarstjórnarinnar. Þeir hljóta gagnið eða ógagnið af gerðum hennar, enda greiða þeir allan kostnað af stjórn bæjarins, þar á meðal laun borgarstjóra að öllu leyti. Í sveitum eru líka allir hreppsnefndarmenn kosnir af kjósendum hreppsins.

Þess má og geta máli þessu til meðmæla, að það er sjálfsagt langvinsælasta mál bæjarins. Það hefir hvað eftir annað verið samþykt á þingmálafundum, annaðhvort í einu hljóði eða sama sem einróma. Á síðasta eða næstsiðasta þingmálafundi voru ein 2 atkv. greidd á móti því.

Í annan stað mundi afstaða borgarstjóra til bæjarfulltrúanna verða frjálsari, ef hann yrði kosinn af borgurum bæjarins. Hann er ekki öfundsverður af núverandi fyrirkomulagi og bæjarstjórnin heldur ekki, allra sízt hún, eftir að stjórnarráðið hefir fengið borgarstjóra atkvæðisrétt í bæjarstjórninni, þvert ofan í tilgang laganna, enda fer sú ráðstöfun stjórnarráðsins beint í bág við lög um bæjarstjórn í Hafnarfirði frá sama degi. Þar er skýrt tekið fram, að borgarstjóri — eða bæjarstjóri eins og hann þar er kallaður — skuli ekki hafa atkvæðisrétt í bæjarstjórninni, nema hann sé jafnframt bæjarfulltrúi. Það kemur líka heim við atkvæði stjórnarskrárinnar, að ráðherra skuli ekki hafa atkvæðisrétt á þingi, nema að hann sé kosinn þingmaður í einhverju af kjördæmum landsins.

Það þykir heldur ekki aldeilis dæmalaust, að núverandi fyrirkomulag hafi ekki gefist vel, og á eg þar sérstaklega við eitt mál. Réð þar atkvæði borgarstjóra meiri hlutanum, og mun nú miklum meiri hluta manna. þykja þar slysalega hafa tiltekist.

Eg sé svo ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um málið að sinni. Vona að deildin sýni málinu þann sóma að vísa því til 2. umr. Það mun tæpast ástæða til að setja nefnd í málið, en ef menn óska nefndar mundi réttast að kjósa 5 manna nefnd.