07.07.1913
Neðri deild: 5. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 79 í C-deild Alþingistíðinda. (65)

15. mál, laun íslenskra embættismanna

Bjarni Jónsson:

Eg hefi lítið annað að gera en taka undir það, sem áður hefir verið talað. Eg er alveg mótfallinn því, að frv. gangi fram.

Hæstv. ráðherra mælti það með hita, að embættismennirnir væru taldir á þessu landi eitthvert óvinsælt afl, sem vert væri að stríða á móti. Þetta hygg eg ekki langt frá því að vera rétt. Og eg held að mér sé skiljanlegt, hvers vegna það er. Orsökin liggur hjá embættismönnunum, ekki sízt þeim er með lögin fara í þessu landi. Það var ekki af hendingu, að einir tveir sýslumenn voru á móti uppkastinu sæla hér um árið. Það var ekki af hendingu, ef það er satt sem Ísafold greinir frá, að stjórnarráðið hafi sent áminningu til allra lögreglustjóra í landinu, að enginn þröskuldur verði lagður í veg ins löghelgaða ríkisfána, sem ekkert tilefni var til, því að í veg hans hafði enginn þröskuldur verið lagður. Nema ef það á að vera tilefnið, að danskur maður, sem á að verja okkur fyrir ágangi erlendra ránsmanna, tekur það upp hjá sjálfum sér umboðslaus frá öllum, að hertaka lögmæta eign Íslendings í íslenzkri höfn. Stjórnarráðið rýkur þá ekki upp til handa og fóta með fyrirskipanir til lögreglustjóranna, að þeir gæti að því, að slíkum yfirgangi verði ekki við komið. Nei heldur segir það:

Gættu að því., að fáni yfirgangsmannsins blakti a hverri stöng. Mig undrar ekki, þó að alþýða manna fái kala til þeirra valdhafa, er slíku fara fram.

Eg tók eftir því, að háttv. þm. Sfjk. (V. G.), minn kæri vinur, talaði um, að þetta frv. Væri illa undirbúið af stjórnarinnar hendi, þar sem hér væru ekki tekin til samanburðar launakjör embættismanna í öðrum löndum.

Þó að eg sé nú ekki dyggur fylgismaður stjórnarinnar, get eg ekki álasað henni fyrir þetta, því að slíkur samanburður á hér alla ekki við. Hér má ekki fara eftir því, hvað aðrar þjóðir geta boðið embættismönnum sínum, heldur eftir ástæðum okkar og efnafari, því sem hér er.

Hæstv. ráðherra hélt, að háttv. þm. N.-Þing. (B. SV.) hefði verið að tala að gamni sínu og áleit því óþarft að svara ræðu hans. En þar var alt sagt í alvöru og hvert orð á réttum stað, og skil eg því ekki, hvers vegna hæstv. ráðh. andmælti ekki þeirri ræðu, nema ef hann hefir ekki treyst sér til þess. Henni hefði hann einmitt sérstaklega þurft að andmæla, ef hann hefði viljað andmæla einhverju af því sem sagt hefir verið.

Hæstv. ráðherra vildi neita því, að hér væri byrjað á öfugum enda. Að vísu er full þörf á að bæta launakjör kennarastéttarinnar, en eg verð að líta svo á, að byrjað sé á öfugum enda með því að taka ina hæstlaunuðu embættismenn með. Það hefði bara átt að bæta kjör skólakennaranna, því að ef nokkrir þurfa þess, þá eru það kennararnir. Þótt eg viti að fæði og húsaleiga — og föt eins eg hæstv. ráðh. nefndi, þó hækkunin sé ekki tiltakanlega mikil á þeim lið — hafi hækkað mjög á seinni tímum, verð eg að halda því fram, að 4–6 þús. kr. laun séu fullsæmileg handa hverjum manni. Það verður að vísu ekki lifað neinu auðmannalífi á því, en má komast mjög sómasamlega af með þau laun og fullkominn óþarfi að hafa þau hærri. Þó undanskil eg dómara, því þeir þurfa að hafa hærri laun en aðrir embættismenn, svo að þeir þurfi ekki að taka að sér nein aukastörf, sem geti gert þá háða öðrum. Dómari á að vera öllum óháður.

Ef tekið hefði verið verið fram í frv. um að hækka laun dómaranna við landsyfirréttinn, að þeir mættu engin störf hafa með höndum önnur en þau, sem dómarastöðunni fylgdu, þá veit eg ekki nema eg hefði verið með því. En hér er flækt inn í launum annara embættismanna, sem engin ástæða er til að hækka, og þess vegna get eg ekki verið með frumvarpinu.

En aðalástæða mín er þó ekki þessi, því að þetta mætti auðvitað laga með breytingartillögu — fella í burtu landssímastjóra, landritara og byskup o. s. frv. — en eg vil ekki láta hreyfa Við launalögunum fyr en búið er að afnema öll eftirlaun. Eg hefi ásamt öðrum góðum mönnum komið fram með frumvarp til stjórnarskipunarlaga, þar sem meðal annars er gert ráð fyrir að láta öll eftlaun falla úr sögunni. Þegar það væri komið í kring, vildi eg að stjórnin tæki launalögin til rækilegrar meðferðar og athugaði meðal annars, hvort ekki mætti fækka embættismönnunum. Eg vil t. d. benda á, að sýslumönnum mundi mega fækka að mun, og fæ ekki betur séð, en að nægja mætti einn dómari í landsfjórðungi hverjum. Þá yrði hægara að launa sæmilega þeim sem nú hafa lægst laun og eiga erfiðast með að komast af. Þó vildi eg ekki að laun neins embættismanns yrðu hærri en 5000 kr. Tala eg hér ekki um ráðherralaun, sem vitanlega þurfa að vera nokkru hærri.

— Eg skal enn taka það skýrt fram, að eg vil ekki að hreyft sé við launalöggjöfinni fyr en eftirlaun eru með öllu afnumin. Eg er því á móti frv., álít réttast að það fái að hvíla sig í bráðina, og mun greiða atkvæði á móti því að það nái fram að ganga til 2. umr.