07.08.1913
Neðri deild: 28. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 848 í C-deild Alþingistíðinda. (678)

100. mál, sölubann á tóbaki til barna og unglinga

Einar Jónsson:

Eg skal ekki þræta um gagnið, sem þetta frumv. ynni, og lengja með því umræður, en eg vil þakka hv. flutningsmönnum þessa máls fyrir að hafa komið fram með það, því að mér virðist það augljóst að hér vé stigið spor í áttina til þess að takmarka ið illa og skaðlega, sem af tóbaksnautninni getur leitt fyrir unglinga.

Hvað viðvíkur frumv. sjálfu, þá virðist mér það ekki vel undirbúið; eg hefði t. d. viljað að inn í það væri sett eitthvert ákvæði, sem hræddi börnin frá að kaupa tóbak. Það er ekki nóg að leggja alla ábyrgðina kaupmanninum á herðar, enda mjög erfitt fyrir kaupmenn að vita nákvæmt um aldur þeirra sem til þeirra eru sendir í verzlunarerindum. Sumir vilja, skilst mér, að foreldrunum og skólunum sé falið að sjá um að börnin neyti ekki tóbaks. Eg álít að slíkt sé ekki mögulegt, og mun víða sterk reynsla fyrir því. Foreldrar og skólakennarar hafa ekki það vald yfir börnunum að þeir geti hindrað slíkt. Eg hefi sjálfur alið upp dreng, og með því að eg vissi, hvað skaðlegt tóbak var, — eg er sem allir vita mjög mikill tóbaksmaður, líklega mestur tóbaksmaður hér í deildinni — þá reyndi eg að varna því að drengurinn neytti þess, en mér tókst það ekki, og eg get þess að svo muni fleirum fara.

Eg vildi reyndar gjarnan að skólar og foreldrar vandi meira en hefir verið uppeldi barna og reyni að hindra að börnin brúki tóbak eða annan óþarfa, en helzt af öllu vil eg fá lagaboð líkt því sem hér er á ferðinni, en ákveðnara þó. Það mundu unglingarnir óttast.

Sumir leggjast vera á móti þessu frv. af því að það sé ekki fullnægjandi. Eg er þeim samdóma í því að það sé ekki fullnægjandi, en eg vil ekki kasta frá mér því sem í boði er, þó frekara væri æskilegra. Það ætti að gilda hjá hverjum hyggnum manni á öllum sviðum í viðskiftum og samningum, og þess vegna mun eg styðja frumvarpið og fylgja því fram.