12.08.1913
Neðri deild: 32. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 965 í C-deild Alþingistíðinda. (795)

29. mál, ritsíma- og talsímakerfi Íslands

Valtýr Guðmundsson:

Þetta frumvarp var ósköp stutt og fyrirferðarlítið, þegar það kom frá stjórninni og ekki gott. Þó er það hálfu verra, eftir breytingar, þær sem Ed. hefir við það gert. Og ef það fær að ganga áfram í þessari deild, þá býst eg við að það verði hvað verst. Þar sem háttv. Ed. hefir farið að hrófla við kerfi, sem búið var að setja áður, þá er enginn vafi á því, að Nd. heldur áfram í sömu átt. Það munu vera margir, sem vilja breyta til, koma 2. flokks línum upp í 1. flokk o. s. frv. Þetta álít eg óheppilegt og vildi óska að allar slíkar breytingar yrðu feldar. Helzt kysi eg að frumvarpið alt yrði felt.

Aðaltilgangur frumvarpsins er auðvitað ákvæði 3. gr., nfl. sá, að lánardrottinn fá tryggingu fyrir fé sínu í afganginum af tekjunum af öllum símunum. Þetta hefir verið sett sem skilyrði fyrir lánveitingu af »Stóra Norræna«. En því getur þetta félag ekki látið sér nægja ábyrgð landssjóðs, eins og aðrar stofnanir gera? Eg kalla það niðurlægingu fyrir oss að þurfa að taka lán með sömu kostum og t. d. Tyrkir, að veðsetja eða sama sem veðsetja tekjur landsins. Ætli afleiðingin gæti ekki líka orðið sú, að félagið fyndi upp á að setja sérstakan eftirlitsmann með þessari tekjugrein. Eg vil því leggja til, að þetta frumvarp verði felt, bæði vegna upprunalega ákvæðisins og viðbótar Ed.

Jafnvel þótt það yrði til þess, að það drægist eitthvað að fá lánið, þá get eg ekki séð, að stór skaði sé skeður. Eg sé ekki, að neitt vit sé í því, að fara að leggja síma yfir sandana í Skaftafellssýslu. Þeir yrðu dýrir, þung byrði á öðrum símalínum, og mundu lítið sem ekkert gefa í aðra hönd. Viðhaldskostnaður mundi verða mikill, vegna eilífra bilana og viðgerða á þessum atöðum. Nokkuð öðru máli væri að gegna, að leggja síma til Víkur að vestanverðu og Djúpavogs eða Hornafjarðar að austanverðu. Líka er eg sannfærður um það, að ef leitað væri eitthvað annað en til Kaupmannahafnar um lánveitingu, þá mundi það fást án slíkra afarkosta, sem Stóra norræna fer fram á.