12.08.1913
Neðri deild: 32. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 974 í C-deild Alþingistíðinda. (801)

29. mál, ritsíma- og talsímakerfi Íslands

Valtýr Guðmundsson:

Það hefir verið upplýst af hæstv. ráðherra, að það var rétt, sem eg fór með, að þetta frumv. er komið fram vegna »Stóra norræna«. Það hefir gert þá kröfu, að lögunum yrði breytt á þessa leið. (Ráðherrann: Eg hefi lagt öll skjöl, sem hér að lúta fyrir nefndina í Ed.). Eg get ekki betur séð, þó að ekki sé um beina veðsetning að ræða, heldur en það sé rétt samt. Því að það er að draga þetta fé undan meðferð Alþingis framvegis. Yfir þessari tekjugrein á Alþingi ekki framar að hafa umráð. Og mér getur ekki skilist annað, en að í þessu liggi vantraust á landssjóði og stjórn Íslands. — Eg skal játa, að kjörin, sem þetta lán fæst með, eru betri en eg hafði haldið. Eg hélt að vextirnir Væru 41/2%, en hv. ráðh. hefir upplýst, að þeir séu ekki nema 4%. En mér þykir það ekkert undarlegt, þó að »Stóra norræna.« vilji lána fé með 4% vöxtum gegn þessari tryggingu, því að félagið getur fengið talsvert meiri tekjur af sæsímanum fyrir bragðið. Eftir því sem fleiri símar komast í samband við sæsímann, eftir því getur félagið búist við meiri tekjum. Það er því til eigin hagsmuna fyrir félagið, að það veiti þetta lán. Og að það sé vantraust á stjórninni, finst mér liggja í því sem háttv. framsögumaður sagði, að það hefði upphaflega verið tilgangurinn hjá stjórninni að greiða þetta lán af þessu fé. En það þótti félaginu ekki nógu trygt, og heimtaði að þetta ákvæði yrði sett inn í lögin. Eg get þess vegna ekki, hvernig sem eg lít á þetta mál, séð annað en að hér er hreint og beint farið fram á eins konar veðsetningu. Eg geng út frá því, að ef t. d. er varið of miklu fé til eins síma, þá má Alþingi ekki framvegis verja neinu fé til annara, síma vegna þessa láns.

Að því er snertir hitt, að ekki sé ætlast til að leggja síma, um Austur-Skaftafellssýslu, þá hefir símastjóri haldið því fram til þessa, að halda beri áfram símalagningu, þangað til alt landið sé komið í símasamband, einnig alla leið sunnanlands. Og þar sem stjórnin hefir hingað til algerlega farið eftir öllum till. Símastjórans, þá má búast við að hún geri það líka í þessu máli. Meira að segja hefir símastjórinn stundum gert ýmislegt alveg upp á eigin spýtur, án þess að bera það undir stjórnina. Eg hefi heyrt sagt, að hann hafi látið flytja símastöðina á Ísafirði úr pósthúsinu í annað hús, þar sem síminn situr með miklu hærri húsaleigu. Eg vildi óska, að hæstv. ráðherra upplýsti, hvort það var gert með samþykki Stjórnarinnar. (Ráðherrann: Það kemur ekki því máli við, sem er til umræðu). Jú, það heyrir einmitt til þessa máls. Stjórnin hefir samþykt alt, sem hann gerir, hvort sem það er á nokkru heilbrigðu viti bygt eða ekki, og þó að það sé til stórskaða fyrir landið, eins og t.d. þessi flutningur á Ísafirði. (Ráðherrann: Tóm staðleysa!).