14.08.1913
Neðri deild: 34. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 1182 í C-deild Alþingistíðinda. (886)

68. mál, bygging, ábúð og úttekt jarða

Framsögum. meiri hl. (Ólafur Briem):

Það er rétt hjá háttv. þm. Dal. (B. J.), að ágreiningurinn er meira í orði en á borði. Nefndin er í sjálfu sér ekkert mótfallin 4. og 5. gr., en Þykir viðurhlutamikið að leggja til að samþykkja þær nú. Nefndin játar, að það sé æskilegast, að lögin um skyld efni séu í heilum bálkum, en sá er galli á, að meðan menn eru að þreifa fyrir sér um, hvað hentast sé, þá er ekki unt að gefa út heila lagabálka; þá verða umbæturnar að koma í smápörtum, unz föst niðurstaða er fengin og þá fyrst getur verið að tala um að fella in dreifðu lagaákvæði inn í einn bálk. En það sem gerir, að nefndin treystir sér ekki til að mæla með 4. og 5. gr. frumv., er það, að bæði er málið vandasamt og ekki nægilega undirbúið. Stjórn búnaðarfélaga Íslands hefir fjallað um málið og telur ekki ráðlegt að vinda bráðan bug að því. Það þarf að fá fasta undirstöðu, reynalan þarf að kenna mönnum, áður en ákvæði eru gerð hér að lútandi. Byggingarefni er enn ekki nægilega rannsakað. Og enn fremur má benda á það, að ef miklar breytingar ætti að gera á byggingarlagi sveitabæja og öðrum þeim sem standa í sambandi við það, mætti ekki minna vera en löggjafarvaldið sæi mönnum fyrir nægri leiðbeiningu í þessum efnum. En sá er enginn, sem það starf hafi með hönd um. Guðmundur prófessor Hannesson hefir oft svarað fyrirspurnum víðsvegar af landinu um fyrirkomulag á húsabyggingum til sveita, en það hefir hann gert af því, að honum er málið áhugamál, en engin skylda liggur á honum í þessu efni. En þótt hann hafi um langan tíma haft sterkan áhuga á að rannsaka þetta efni, þá er vitanlega ekki um jafnvíðtækar rannsóknir að ræða, sem gera mætti ráð fyrir, ef sérstakur maður væri fenginn til þess, sem ekki hefði annað starf með höndum. Sá maður, sem veitir leiðbeiningar um kirkjusmið og íbúðarhúa á prestssetrum, Rögnvaldur Ólafsson, hefir meira en nóg á sinni könnu. Það sem hér á ríður, er að gera sem mest af litlum efnum. Þótt það sé gott að bæta húsakynnin, þá er hagurinn að því að eins óbeinn. Í fyrri landbúnaðarnefndinni, sem að eins var skipuð 3 mönnum, var þetta atriði tekið til íhugunar, og taldi hún þörf á sérstakri leiðbeiningu í þessum efnum. Það getur verið örðugt jafnvel að fá góða smiði til verksins, og það er ekki lítið fé, sem menn hafa oft tapað á því, að smiðirnir hafa ekki kunnað nógu vel til verksins né verið nógu vandvirkir.

Það er nauðsynlegt, áður en út í meira er ráðist, að kynna sér húsakynni um landið og sambandið milli leiguliða og landsdrotna; ekki er víst, að alstaðar eigi sama við. Ef til vill græddist töluvert við það, að bera málið undir almanna dóm, og leita álits sveitarstjórna.

Það fer fjarri því, að meiri hlutinn leggi nokkurt kapp á það, að sporna við framgangi þessa nýmælis um húsabyggingarnar, en hann vill ekki bera ábyrgð á því, að þetta sé nú lögleitt.