12.08.1914
Neðri deild: 44. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 1202 í B-deild Alþingistíðinda. (1200)

129. mál, afleiðingar harðræðis

Sigurður Sigurðsson:

Ástæðan til þess, að tillaga þessi er svo seint fram komin, er sú, að nefndin varð að leita sér upplýsinga út um land um ástandið. En að þeim fengnum kom fréttin um ófriðinn, sem alt setti á annan endann. Þetta olli töfum, og málið dróst svona koll af kolli. En þó kom oss saman um að gera þetta heldur en ekki neitt, því að það gæti þó orðið einstaka hrepp og einstaka manni að gagni.

Hér er ekki um alment hallærislán að ræða, heldur er hér verið að rétta hjálparhönd, þeim sem mestan skaða hafa beðið. Háttv. 1. þm. Rang. (E. J.) hélt, að Rangæingar mundu ekki þurfa að nota þessa hjálp og gleður það mig mikið. Eg vona, að sem fæstir þurfi á henni að halda og það mun reynast, einkannlega ef heyskapur verður góður í sumar, verðlag gott á fé í haust, og bankarnir liðlegir viðskiftavini sína.

Eg vona, að mönnum sé það nú ljóst, hvers vegna tillagan er ekki fyrr fram komin en þetta.