11.08.1914
Neðri deild: 41. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 1227 í B-deild Alþingistíðinda. (1215)

121. mál, uppburður sérmála Íslands

Benedikt Sveinsson:

Eg hefi getið þess við 2. umræðu stjórnarskrármálsins í dag, hvern skilning meiri hluti alþingis 1903 lagði í ríkisráðsákvæðið þá. Þar með þóttist meiri hlutinn þá hafa tekið ákvæðið undir íslenzkt löggjafarsvið og hélt því fram, að ef menn hefði á móti ákvæðinu, mætti altaf kippa því út úr stjórnarskránni með stjórnarskrárbreytingu.

Þetta hefir nú reynzt annan veg en meiri hluti þingsins 1903 hélt fram. Það kom í ljós þegar þingið vildi kippa burt ríkisráðsákvæðinu. Konungur vildi ekki fallast á þá breytingu. Þá tók þingið 1913 þann milliveg, að konungur skyldi ákveða, auðvitað með ráðherra Íslands einum, hvar mál Íslands skyldi borin upp, en það var vitanlega alls ekki tilgangur nokkurs manns að gera þetta mál þar með að »sameiginlegu« máli. Enginn maður á síðasta þingi vildi draga málið undan valdsviði þingsins undir »sammálin«, en það er þó einmitt það, sem gert er með úrskurðinum 20. okt. 1913.

Annað mál er það, að þingið 1913 á þó sjálft nokkra sök í þessu efni. Það sýndi ekki nóga varfærni í fyrra, þegar það gaf málið í vald konungs, því að þar með var altof mikið vald lagt í hendur stjórnarinnar, en það er óvarlegt að eiga svo mikið undir ráðherra sem reynzt getur misjafnlega, eins og fram kom 20. okt. í fyrra.

Mig undrar það, að í nefndarálitinu skuli að mestu dregin fjöður yfir það, sem þá fór fram í ríkisráði, og að sú ráðstöfun var gerð í óþökk þingsins og gagnstætt vilja þess, eins og sumum stjórnmálagörpunum hafa þó farist orð um það mál fyrir kosningarnar. Meðferð fyrrv. ráðherra á þessu máli í ríkisráðinu 20. okt. er skylt að mótmæla eindregið og vita sem harðast. En nú heyri eg, að það hefir orðið að samkomulagi, að múlbinda háttv. nefnd, og verður að segja það minni hlutanum til hróss, að hann hefir sýnt töluverða lagni í því, að taka fyrir munninn á meiri hlutanum, sjálfsagt með því að ginna hann með fögrum loforðum um að fylgja fyrirvara hans, en svo þegar til kemur, þá kemur minni hlutinn með nýjan fyrirvara, sem er allur annar, en lofað hafði verið.

Háttv. 1. þm. Eyf. (H. H.) sagði í dag, að það sem fram fór í ríkisráðinu þ. 20. okt. í fyrra hefði eiginlega verið tvennar ráðstafanir, önnur íslenzk og önnur dönsk. Það getur nú verið, að konungsbréfið, sem ráðherra Íslands skrifaði undir með konungi, megi kalla íslenzka stjórnarráðstöfun, en hitt danska ráðstöfun, sem forsætisráðherra Dana skrifaði undir og birt var í Danmörku. En þetta er ekki aðalatriði málsins, hvernig birt var það, sem um hafði samist, heldur hitt, að þarna varð samkomulag milli þriggja aðilja, Íslandsráðherra, forsætisráðherra Dana og hans hátignar konungsins, um það, að ákveðið skuli í eitt skifti fyrir öll að íslenzk mál skuli borin upp í ríkisráði Dana og að þessu fyrirkomulagi skuli ekki breytt, nema til komi ný sambandslög, er ríkisþing Dana og alþingi samþykkir en konungur staðfestir, þar sem gerð sé á þessu önnur skipan. — Þessi gerningur er sameiginlegt verk allra þessara þriggja aðilja, og eg get ekki skilið það, að konungur og Íslandsráðherra geti breytt þessu, án þess að til komi samþykki þriðja aðiljans.

Með þessum gerningi er stofnað til þess, að gera uppburð íslenzkra mála, sem hingað til hefir verið kallað íslenzkt sérmál, að sameiginlegu máli, sem Íslendingar geta ekki breytt með konungi sínum einum. Þeir verða að fá dönsk löggjafarvöld til að gera aðra skipun á málinu, ef því á að fást breytt.

Þá vil eg minnast nokkrum orðum á þessar þrjár tillögur um fyrirvara, sem fyrir liggja, tillögu meiri hlutans á þskj. 438, breytingartillögu minni hlutans á þskj. 447 og svo tillögu háttv. 2. þm. N.-Múl. (J. J.) á þskj. 455. Eg skal byrja á hinni síðast nefndu.

Mér virðist þessi tillaga vera í beztu samræmi við þær skoðanir, sem flokkur Sjálfstæðismanna hélt fram fyrir kosningarnar og leiddu hann til sigurs. Þar eru tekin ljóslega fram þau atriði, sem fundin hafa verið til foráttu því, sem gert var í ríksráðinu 20. okt. í fyrra.

Fyrst og fremst er það tekið fram, að svo verði að líta á, sem það hafi verið vilji alþingis í fyrra, að hinn væntanlegi konungsúrskurður um uppburð sérmálanna yrði engum skilyrðum bundinn. Að því höfðu allir gengið vísu, engum komið annað til hugar, og er því nauðsyn, að þingið gefi skýra yfirlýsingu um þetta. Að vísu er drepið á þetta í hinum tillögunum líka, en aðeins lauslega.

Í öðru lagi er í þessari tillögu lýst mótmælum gegn gjörninginum í ríkisráðinu og konungsúrskurðinum, og sé eg ekki betur, eftir umræðunum sem orðið hafa um þetta mál síðan í haust, en að þessa þurfi fyllilega við. Það er ekki nóg að lýsa yfir s k i l n i n g i sínum á því, sem þar gerðist, — það getur hver haft sinn »skilning« á því — heldur verður að mótmæla öllu því, sem þá var gert gagnstætt tilætlun og vilja alþingis, og það var fleira en eitt. — Eg vil t. d. benda á það, er Íslandsráðherra sagði þar í fyrstu ræðu sinni, að sú væri tilætlunin, að það yrði forréttindi konungs, fráskilin ákvörðunum alþingis, að ákveða stað fyrir uppburð sérmálanna. Þetta er ekki rétt, heldur var tilætlunin, að þetta hyrfi fyrst og fremst undir fulltrúa alþingis, þ. e. Íslandsráðherra, ásamt konungi. Það var ekki tilætlunin, að fara nú að gera málið »fráskilið ákvörðunum alþingis«, þvert á móti skilningi þingsins 1903, heldur var hitt einmitt tilætlunin, að sýna það í verkinu, að þingið 1903 hefði haft rétt fyrir sér í því, að hér væri um sérmál að ræða, sem þingið gæti því hagað eftir vild sinni með samkomulagi ráðherrans fyrir þess hönd við konung einan. Og það er næsta einkennilegt, að sami ráðherra skuli nú hafa haldið þessu afsali fram í ríkisráðinu, sem sjálfur sagði 1903, að alþingi væri þá að gera ríkisráðsákvæðið að »sérmála-atriði«. — Í annan stað er nauðsynlegt að mótmæla þessu »samkomulagi«, sem Íslandsráðherra gekst undir við forsætisráðherra Dana, eftir það er hann, forsætisráðherrann, hafði átt frumkvæði að skilyrðum þeim, sem sett vóru af danskri hálfu fyrir stjórnarskrárstaðfestingunni. Því að þess verða menn að gæta, að það er hann, sem ræður konungi til þess að samþykkja ekki stjórnarskrárbreytinguna, nema konungur neyti um leið valds þess, sem honum er gefið með henni, til þess að ákveða, að engu verði breytt um uppburð sérmálanna í ríkisráðinu, nema með samþykki Dana á nýjum sambandslögum. Þar sem þetta var gagnstætt því, sem til var ætlast, er auðvitað óhjákvæmileg nauðsyn á að mótmæla því.

Í þriðja lagi er í þessari þingsályktun ráðherra falið að s k r i f a e k k i u n d i r konungsúrskurð um uppburð sérmálanna, nema nýr úrskurður fáist, er eigi sé skilorðsbundinn. — Þetta eru skýr og ákveðin orð, og hér duga ekki tóm hálfyrði, sem ekki verður tekið mark á og konungur gæti gengið að, þótt hann héldi óbreyttri skoðun sinni frá því í fyrra og þ e i r r i f r a m k v æ m d, sem þar er ráð fyrir gert. Skilyrðið fyrir því, að þjóðin vilji, að stjórnarskráin sé staðfest, er það, að fallið verði frá því, sem gert var í ríkisráðinu 20. okt. 1913. Það er því nauðsynlegt, að konungur breyti vilja sínum í þessu, en geti það ekki orðið, og eigi stjórnarskráin sökum þess að falla, þá kýs eg það langtum heldur, en að réttur vor sé skertur að nokkru eða teflt í nokkra tvísýni. Því að þótt þjóðin óski þess, að stjórnarskrármálið nái nú fram að ganga, ef þess verður auðið afarkostalaust, þá vill hún þó ekki kaupa smáréttarbætur fyrir stórt réttindaafsal, allra sízt þær, sem hún á þá einnig undir sjálfri sér að taka hvenær sem er.

Á breytingartillögu minni hlutans er harla lítið að græða, eins og ræðu háttv. 2. þm. Rvk. Hann hafði lag á því, að flækja svo málið og flétta í ræðu sinni, að ekkert ákveðið varð úr. Hann var að hæla háttv. fyrrv. ráðherra, var þó ekki frá því, að rétt væri að samþykkja einhvern fyrirvara, en alt var óákveðið. Þeir eru fastlega á því, þessir menn, að uppburður sérmálanna sé »sérmál«, og neita því, að nokkur breyting hafi orðið á því með því sem gerðist í ríkisráði í fyrra. En hvernig geta þessir góðu menn þ r æ t t þ v e r t ofan í skýlausar og skjallegar yfirlýsingar í opinberum ritum um það sem fram hefir farið? Er það tóm mark1eysa, sem forsætisráðherra Dana bar fram, konungur og ráðherra Íslands féllust á og samþyktu um þetta efni á ríkisráðsfundinum 20. okt. s. l.?

Eg held að það sé ekki til neins að berja höfðinu við steininn, og að ekki verði slegið stryki yfir það, sem þeir háu herrar gerðu þar, nema það fáist hreint og beint aftur tekið. Þeir neita því, þessir háttv. þm., að nokkur breyting hafi verið gerð með opna bréfinu um kosningar til alþingis og segja, að það hafi verið íslenzk stjórnarráðstöfun o. s. frv. Þetta er ekkert annað en máttlaus fullyrðing út í loftið, sem allir sjá og vita, að kemur í beinan bága við sannleikann. — Þá staðhæfa tillögumenn, að þessi margnefndi úrskurður geti ekki skoðast »öðru vísi en önnur íslenzk stjórnaráðstöfun, er að sjálfsögðu má breyta á sama hátt, sem hún er gerð«, af konungi með undirskrift Íslandsráðherra eina. Eg skil ekki, hvernig konungur, og Íslandsráðherra eiga einir að fara að breyta því, sem þeir hafa gengið að, heitið og staðfest fyrir forsætisráðherra Dana og öllum dönsku ráðherrunum, og birt hefir verið báðum þjóðunum, Dönum og Íslendingum, að alls ekki skuli mega breyta, nema ríkisþing og alþingi hafi gert þar á aðra skipan í sambandalögum, er konungur hefir staðfest. Það er engu líkara en menn eigi hér tal við smábörn, og sætir slíkt furðu um fullveðja og mentaða menn. Og er það ekki að lítilsvirða orð konungs á einfeldnislegan hátt, að þrír eða fjórir menn hér á þingi skuli halda því fram, að þeirra «skoðun« ein geti gert að engu þær ákvarðanir, sem hann hefir gert með ráðherrum sínum á ríkisráðsfundi? — Ennþá marklausari verður slík fullyrðing, þar sem þessir menn ætla þó að samþykkja stjórnarskrána óbreytta, því að það hlýtur konungur að skoða sem samþykt í verki á fyrirfram auglýstri ráðstöfun sinni, ef ekki er öðruvís um hnútana búið.

Tillaga meira hlutans var lengst í smiðum í nefndinni, en þó ber hún ekki mikið af tillögu minna hlutans. Hún er jafnvel að sumu leyti ennþá óákveðnari og ruglingslegri. Eitt ákveðið og ærlegt orð finst þó í henni og hefir hún það fram yfir till. minna hlutans: það er orðið »á s k i 1 u r«. En því miður hverfur það innan um allan óskýrleikann og þokuna, sem tillagan er sveipuð.

Fyrsta atriðisorðið, sem fyrir verður í tillögunni er þetta: »að ef svo yrði litið á, að með því sem gerðist á ríkisráðsfundi 20. okt. 1913« o. s. frv. Hér er um vitanlegan, skýlausan, opinberan og augljósan v i ð b u r ð að ræða, sem enginn vafi er á, að hefir átt sér stað, alveg eins og hver annar sögulega sannanlegur og vitaður atburður. — Það er ofur afkáralegt að taka svo til orða um hluti, sem eru jafnljósir sem þessir. Það mætti alveg eins segja núna: »ef svo yrði litið á, að einhversstaðar sé nú stríð í heiminum«, eða »ef svo yrði litið á, að til væri fornkvæði, er kallað væri Völuspá«, o. s. frv.

Vér höfum fyrir oss ræðurnar, sem haldnar vóru í ríkisráðinu 20. október í fyrra, og opna bréfið um konungsúrskurðinn, þar sem sagt er berum og skýlausum orðum, að svona verði til hagað, ef stjórnarskráin verði samþykt óbreytt.

Hitt er líka tvírætt, að vera að tala um, hvort málið hafi verið lagt undir valdsvið dansks löggjafarvalds með því sem gerðist á ríkisráðsfundi 20. okt. 1913. Frá sjónarmiði Dana er það ekki lagt undir valdsvið þeirra þ á, því að þeir halda því fram, að það hafi verið gert löngu áður, en frá sjónarmiði Íslendinga er öðru máli að gegna. Danir geta vel gengið að því, að hér sé ekki um neitt nýmæli að ræða, heldur sé með þessu einungis slegið föstu því, sem altaf átti að vera frá þeirra sjónarmiði.

Þá er það nokkuð skrítið orðalag, að þingið á skilji það, að eitthvað sé »skoðað« svo eða svo. Skoðað svo af hverjum? Þinginu, konungi eða Dönum? Um það er ekki getið. Þingið getur áskilið, að eitthvað skuli vera svo eða svo, en ekki hitt, hverja skoðun einhverjir menn hafi. Er þingið að skuldbinda sjálft sig með þessu til þess, að hafa einhverja skoðun á málinu, eða þá Dani eða konunginn? — Það væri nú ekki nema gott, ef þingið gæti skuldbundið sjálft sig til þess, að hafa sömu skoðun á máli, þótt ekki væri nema svo sem árlangt, því að þá yrði ekki hringlandinn jafngengdarlaus.

Mér finst alveg óverjandi, að alþingi láti sjást frá sér nokkurt »d o c u m e n t u m h i s t o r i æ« með svona orðalagi. Það er lítil einurð í þessu, eftir alt það, sem meiri hlutinn hefir sagt og skráð um málið, og verður því varla neitað með rökum, að þingið sýni það, ef það samþykkir slíkar till., að það sé ófært til að fara með mikilvæg mál, og er hart að láta slíka réttarspilling eftir sig liggja.

Eg skal svo ekki orðlengja þetta mikið héðan af, enda hefi eg talað um málið nokkuð áður, en þar sem nú er hér hver höndin upp á móti annari í þinginu um skýringar þessa máls og bornir fram sundurleitir fyrirvarar, þá hygg eg, að oss væri sæmilegast að fara að dæmi Dana, og fresta stjórnarskrármáli voru á þessum hættutímum. Réttur vor versnar ekki, þótt það sé gert, en það getur hann gert, ef farið er að samþ. eitthvað, sem engum kemur saman um, hvernig beri á að líta, þrátt fyrir alt, sem talað er um samkomulag. Eg skil það vel, að sumir kunna að vera ánægðir með það, sem valdið gæti staðfestingarsynjun, en eg hefi ekkert gaman af því. Eg kýs heldur, að Íslendingar felli sjálfir ráðherra sinn af stóli, ef þeim sýnist svo og nauðsyn ber til. Úr því að þingið var ekki nógu gætið í upphafi, er það fól málið í hönd konungi, og úr því fyrrv. ráðherra brást tilætlan þess og trausti, þá er að taka afleiðingunum af því, og það strax. Eg hygg, að vér munum hafa nóg að deila um við Dani á næstu árum, þótt vér stofnum eigi til fjandskapar út af þessu máli nú.

Annaðhvort er, að Danir taka eitthvert mark á þessum fyrirvara, þótt óljós sé, og þá verður stjórnarskránni synjað stað festingar, e ð a a l ls e k k e r t, og þá fær hún staðfestingu, með þeim hætti, sem konungur, forsætisráðherra Dana og ráðherra Íslands gerðu með sér 20. okt. 1913, en uppburði mála vorra fæst samkvæmt því að engu breytt nema með nýjum sambandslögum, sem ríkisþing Dana felst á. — Og meðan mestöll Norðurálfan er í blóði sínu að berjast fyrir fjörvi og frelsi, þá væri það h a r t ef vér með léttúð færum að stofna frelsi voru í nokkurn voða ótilneyddir og að ástæðulausu.