29.07.1914
Efri deild: 21. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 136 í B-deild Alþingistíðinda. (1445)

4. mál, mæling og skrásetning lóða

Umboðsm. ráðh. (Kl. Jónsson):

Jeg vildi leyfa mjer að segja nokkur orð út. af því, sem rætt hefir verið um 11. gr. Jeg get ekki sjeð, að það sje í rauninni mikill efnismunur á greininni eins og hún kom frá Nd. og eins og hún verður, ef brtt. nefndarinnar verða samþyktar, því að þó feld sjeu úr frumvarpinu orðin „og er afsal þá eigi gilt“, þá er það svipað eins og þegar sagt er, að ekki: megi þinglýsa afsalinu fyr en búið er að tilkynna til lóðaskrár. Þetta kemur því í sama stað niður, því að fullkominn eigandi er maður ekki fyr en hann fær afsalið þinglesið. Að öllu athuguðu er jeg því á því, að orðalag neðri deildar sje fult eins greinilegt eins og brtt. nefndarinnar. Viðvíkjandi því, sem háttv. 1. kgk. (J. H.) sagði, vil jeg geta þess, að það er ekkert óeðlilegt þótt gömlum lögum sje breytt. Það er ekki langt síðan að hjer á Alþingi var verið að breyta hjer um bil 1000 ára gömlum lögum. Það er og ekkert óeðlilegt, þótt vottorð þurfi á skjal, til þess að það fái fult gildi. Slíkt er algengt. Hjer hafa að vísu fá skilyrði verið fyrir því að fá skjal þinglesið; það hefir ekki þurft annað en fara með það til sýslumanns eða bæjarfógeta og greiða þinglestrargjaldið. Í Danmörku er það ekki nægilegt; þar eru lögboðin margskonar gjöld til ýmissa sjóða, áður en hægt er að fá t. a. m. afsalsbrjef þinglesið. Nú er hjer farið fram á þá breyting, að til þess að eigandaskifti sjeu fullgild, að því er lóð í Reykjavík snertir, þá sje ekki tiltök, að fá það þinglesið á venjulegan hátt, heldur þurfi að auki vottorð um, að þeirra sje getið í lóðaskrá bæjarins. Þetta er alls engin óeðlileg kvöð eða haft á viðskiftalífið. Þar með er það líka trygt, að ávalt er hægt að fá fulla vissu fyrir því, hver sje eigandi lóðar. En slíkt hefir oft hingað til verið vafa undirorpið. Það kemur varla sá fundur fyrir í bæjarstjórninni, ef um einhver lóðamál er að ræða, að hún sje ekki í vafa um, hver sje eigandi lóðarinnar. Þetta er mjög óþægilegt fyrir bæjarstjórnina, en þó einkum fyrir þá, sem vilja fá lóðirnar keyptar.

Jeg held að þessu ákvæði sje ekki þannig varið, að menn þurfi að óttast, að það hafi neinn rjettarmissi í för með sjer.