03.08.1914
Efri deild: 30. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 159 í B-deild Alþingistíðinda. (1502)

25. mál, dómtúlkar og skjalþýðendur

Framsögumaður (Björn Þorláksson):

Eins og tekið er fram í nefndarálitinu, er þetta frumvarp komið frá Nd. Nefndin hefir athugað það og var öll á einu máli um það, að hjer væri um nokkra rjettarbót að ræða, og ræður hún því til, að frv. verði samþykt með litlum breytingum, sem fremur eru orða- en efnisbreytingar. Miðbrtt. nefndarinnar er að eins lítil orðabreyting. En 1. brtt. er fólgin í því, að nefndinni þótti ekki nóg að þeir menn, sem eru dómtúlkar og skjalþýðendur, sýni að þeir hefðu næga þekkingu á því tungumáli, sem þeir þýða úr, heldur einnig, að þeir hafi praktíska þekkingu á því málefni, sem um er að ræða, t. d. ef málið er lögfræðilegs efnis, að þeir þá skilji hinar einföldustu og algengustu hugmyndir í lagamálinu. Tillagan tryggir því nokkuð að þýðendur hafi dálitla praktíska þekkingu á málefni því, sem um er að ræða.

Nefndinni þótti því viðurhlutamikið, að þessir menn hefðu einkarjett til þess að þýða skjöl og vera dómtúlkar, og vill því leggja til, að aðrir menn megi hafa þetta starf á hendi, ef þeir eru dómkvaddir til þess í hvert skifti, og um þetta er 3. brtt. Jeg vona að ekki þurfi fleiri orð um þetta mái, en óska að frumvarpið gangi þrautalaust gegn um deildina, svo að það verði sem fyrst endursent til háttv. Nd.