05.08.1914
Neðri deild: 35. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 197 í B-deild Alþingistíðinda. (165)

77. mál, notkun bifreiða

Sigurður Sigurðsson:

Eg get ekki fylgt þessu eftirdæmi þeirra háttv. 1. þm. Rang. (E. J.) og háttv. 1. þm. Húnv. (G. H.) þó að fagurt sé, en eg vildi mælast til þess, að háttv. forseti krefðist hljóðs í deildinni. Þeir sem nauðsynlega þurfa að tala saman geta farið út, en þó vildi eg, að háttv. 1. þm. Rvíkur (Sv. B.) væri inni á meðan eg svara honum.

Það hefir verið sagt um brt. mína, að hún takmarkaði bifreiðaferðirnar, og gæti orðið þess valdandi, að Austanmenn notuðu þær ekki, eins og þeir þyrftu eða óskuðu. Til þess er því að svara, að fram að þessu hafa Austanmenn sáralítið notað bifreiðar og eg geri ráð fyrir, að þær verði aldrei notaðar til þungaflutnings svo að teljandi sé, heldur að eins til mannflutninga. Að minsta kosti bendir sú reynsla, sem þegar er fengin í þessu efni, í þá áttina. Þeir menn úr nærsveitunum, sem hingað til hafa ferðast með bifreiðum, hafa aðallega verið prestar og sýslumenn, sem þungir hafa verið á sér, en lítið sem ekkert af öðru fólki.

Eg get vel skilið, að hr. frams.m. (E. P.) eigi erfitt með að vega salt á milli breytingartillagna okkar háttv. 1. þm. Rvíkur (Sv. B.). Eg get getið því nærri að hann, með sínu prestslega innræti, hafi tilhneigingu til að miðla málum okkar á milli. En eg held, að hann hljóti að eiga erfitt með að rísa upp á móti brt. minni, ef hann skygnist inn í instu leynihólf hugsunar sinnar og heila, því að engum blöðum er um það að fletta, að brt. mín er í samræmi við óskir meiri hl. manna fyrir austan fjall.

Þó að brtill. mín verði samþykt, þá er síður en svo, að menn sé útilokaðir frá því að nota bifreiðarnar, hvorki Austanmenn né Reykvíkingar. Menn geta ferðast í bifreiðum eins og þeir ætla sér á nóttunni, og á þessu tímabili frá 20. júní til 10. júlí, er svo bjart allan sólarhringinn, að mönnum má á sama standa, hvort þeir ferðast á nóttu eða degi. Auk þess geta bifreiðarnar gengið óhindraðar tvo daga vikunnar, þann tíma ársins, sem mest er um mannaferðir.

Annars er svo dýrt að ferðast með bifreiðum, og að nota þær til flutnings, að það er hér um bil frágangssök fyrir aðra en þá, sem fé hafa á reiðum höndum, og það er ekki allur almenningur, og sízt fátæklingarnir, sem þannig eru fyrirkallaðir. Hluturinn er sá, að bifreiðarnar hafa verið, það sem af er, og verða í næstu framtíð, aðallega skemtisamgöngufæri fyrir Reykvíkinga, og aðra þá, sem hafa ráð á að skemta sér á þann hátt.

Mér þykir leitt, að háttv. 1. þm. Rvk (Sv. B.) skuli ekki vera hér inni, en eg verð þó, þrátt fyrir það, að leiðrétta mishermi, sem hann gerði sig sekan í, og í öðru lagi, að koma með stutta athugasemd við ræðu hans. Hann hafði það eftir mér, að eg hefði sagt, að ef Danir tæki eitthvað ákvæði upp í löggjöf sína, þá ættum vér að innleiða það hjá oss, án tillits til hvort það ætti hér við eða ekki. Þetta sagði eg aldrei. En hitt sagði eg, að þar sem svo oft væri vitnað til Dana, og dönsk lög þýdd orðrétt og gerð að íslenzkum lögum, þá væri ekki síður ástæða til, að taka tillit til danskrar löggjafar um þetta efni, og ekki sízt þar sem Norðmenn hefði einnig þetta umdeilda ákvæði í sínum lögum. Þetta sagði eg, og við þetta stend eg.

Þá vildi sami háttv. þm. (Sv. B.) bera á, móti því, sem við, eg og háttv. þm. Ak. (M. Kr.), héldum fram, að þeir er færi með bifreiðar ætti hægara með öll sönnunargögn, heldur en þeir, sem mætti þeim. Þetta vil eg sanna með sérstöku dæmi. Hluturinn er þessi, að þó að það beri við, að sveitamenn sé á ferð margir saman, þá er það enganveginn sjaldgæft, heldur miklu fremur hitt, að þeir sé einir á ferð. En þegar svo er ástatt, þá eru þeir hvað verst við því búnir að mæta bifreiðum. En sagan, sem eg vildi segja til dæmis, var þessi: Maður var á ferð með kerru og hest fyrir, en aftan í kerruna var bundinn annar hestur og var hann undir böggum. Maðurinn mætir bifreið, kerruhesturinn fælist og hesturinn aftan í kerrunni sömuleiðis. Maðurinn gat ekki gert nema eitt í einu, og honum verður fyrst fyrir að halda í kerruhestinn svo að hann þyti ekki út í veðrið. En á meðan slítur hinn hesturinn tauminn, þýtur út í veður og vind og maðurinn sér hann ekki meir. Hann kemst að Kolviðarhól með kerruna og kerruhestinn, en hinn finst ekki fyrr en eftir þrjá daga. Baggarnir eru aftur á móti ófundir enn. Hvernig mundi svo þessi maður hafa staðið að vígi ef til málshöfðunar hefði komið? Eg held hálfilla. Annar maður er á ferð og rekur hesta á undan sér. Bifreið kemur á móti honum og kemst á milli hans og hestanna.

Hestarnir þjóta sinn í hverja áttina og það er fyrir tilviljun, að þeir eru stöðvaðir af öðrum ferðamönnum, sem þar eru nálægt. Bifreiðarstjórinn hélt leiðar sinnar. Hann reyndi svo sem ekki að koma í veg fyrir, að hestarnir hlypi út í buskann og töpuðust. Það var síður en svo. Hvernig hefði hér farið, ef til málshöfðunar hefði komið? Af þessum dæmum hygg eg, að það sé ljóst, að ferðamenn standa illa að vígi að ná rétti sínum, þó að þeir verði fyrir tjóni af bifreiðunum.

Að því er snertir ákvæðið í 14. gr. frv. þar sem svo er fyrirmælt: »Eigandi bifreiðar ber ábyrgð á henni og er skaðabótaskyldur samkvæmt 13. gr.«, þá er það ekki annað en aðhald að bifreiðareigandanum, að hann láni ekki öðrum bifreið sína, ef til vill þeim, sem lítt eða ekki kunna með hana að fara, og tel eg það ekki neinn skaða.

Eg verð að álíta það háskasamlegt, að eg ekki viðhafi stærra orð, ef brtill. háttv. 1. þm. Rvk. (Sv. B.) á þgskj. 333, verða samþyktar, og þess vegna tel eg sjálfsagt, að þær verði látnar falla. Hins vegar vænti eg þess, að breyt.till. minar á þgskj. 316 verði samþyktar. Eg þykist hafa sýnt fram á, að þær miði ekki til þess að hindra umferð bifreiðanna, nema þá að mjög litlu leyti. Austanmenn og Reykvíkingar geta notað sér bifreiðarnar jafnt eftir sem áður, þar sem þær mega, á þessum tíma sem ákvæðið gildir um, ganga óhindraðar á hverri nóttu og auk þess tvo daga í hverri viku, þá dagana, sem umferðin vanalega er mest.

Þá á eg aðeins eftir að minnast á eitt atriði út af ummælum háttv. 1. þm. Rvk. (Sv. B). Hann sagði, að hér á landi stafaði margfalt minni hætta af umferðum bifreiða, heldur en annarsstaðar. Hér gæti þær ekki farið hart, vegna þess, að vegirnir væri svo slæmir. Þessu vil eg snúa við og segja, að hættan sé óvíða meiri en hér, vegna þess, að vegirnir eru svo slæmir, bæði krókóttir, brattir og mjóir. Hér á landi eru menn ekki alment leiknir í því að ganga þrönga veginn. Auk þess vil eg benda á, að á betri köflum veganna hér geta bifreiðarnar farið fulla ferð. Þetta hafa þeir líka að nokkru leyti viðurkent, sem frv. hafa samið, og eins hv. Ed. með því, að samþykkja það. Í 6. gr. frv. er svo ákveðið, að ökuhraðinn megi aldrei fara fram úr 35km. á klukkustund; en þetta ákvæði væri með öllu þýðingarlaust, ef það væri útilokað, að bifreiðarnar gæti nokkurntíma farið hraða ferð.

Eitt atriði í breyt.till mínum á þgskj. 316 hefi eg ekki minst á áður. Það er fyrri málsliðurinn í fyrri breyt.till., sem hljóðar svo: »Eigi er leyfilegt að nota bifreiðar á vegum fyrr en klaki er farinn úr þeim og vegirnir orðnir þurrir«. Ef það væri ekki á móti þingsköpunum, þá hefði eg helzt kosið, að þessi liður væri borinn upp sérstaklega, vegna þess, að þó að annað í tillögum mínum falli, þá álít eg, að þetta ákvæði sé svo stórmikils um vert, að ekki geti komið til mála, að nokkur setji sig upp á móti því. Það er vitanlegt, að vegirnir fara þá verst undan bifreiðunum, þegar þeir eru blautir og meðan klaki er í jörðu. Fyrir því vildi eg beina þeirri ósk til hæstv. forseta, að þessi liður verði bor inn upp sérstaklega, ef hann telur það ekki vera á móti þingsköpunum.