22.07.1914
Efri deild: 15. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 256 í B-deild Alþingistíðinda. (1731)

23. mál, tollalög

Karl Einarsson :

Jeg ætla að taka það fram út af tillögu nefndarinnar um að vísa til 155. gr. hegningarlaganna, að vjer höfum tekið þessa tilvísun upp í frv. af því að eigi er hægt að dæma eftir greininni nú fyrir tollsvik, enda þótt skilyrðin að öðru leyti væru fyrir hendi, sökum þess að í enda hennar stendur: „nema einhver önnur hegning sje viðlögð í sjerstaklegum lagaákvörðunum“.

Þetta útilokar algjörlega að þessari gr. hegningarlaganna verði beitt í tollsvikamáli, og er það því nýmæli, sem hjer er um að ræða. Jeg tek þetta fram til athugunar fyrir hv. deild, því jeg tók ekki eftir að þetta kæmi skýrt fram í framsögunni.