30.07.1914
Sameinað þing: 3. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 25 í B-deild Alþingistíðinda. (2082)

102. mál, handbært fé landssjóðs komið í gull

Eggert Pálsson :

Jeg veit það að tillögumönnum gengur gott eitt til með þeirri þingsályktunartillögu, sem þeir hafa komið fram með. En mjer virðist að hjer hafi verið farið fullgeyst af stað, því að mjer er ekki grunlaust um, að þessar aðfarir þingsins geti vakið óþarfa ótta hjá almenningi.

Ef ekki á að skilja tillöguna öðruvísi en svo, að landsstjórnin skuli gjöra þær ráðstafanir, sem nauðsyn krefur, til þess að forða landinu við yfirvofandi hættu, þá get jeg ekki sjeð að nauðsyn hafi verið að kalla þingið saman á þessum tíma dags. Þingið hefir þegar kosið nefnd í þessu skyni og mjer sýnist að það hefði verið nægilegt að sú nefnd og umboðsmaður ráðherra hefðu komið sjer saman um hvað gjöra skyldi, og að stjórnin hefði svo á morgun og í kyrþei gjört þær ráðstafanir, sem nauðsynlegar hefðu verið, svo sem að víxla seðlum landssjóðs í gull, eftir því sem bankarnir hjer hefðu viljað og getað látið af hendi: Því til þess hefði enga íhlutun þurft frá löggjafarvaldsins hálfu. Það held jeg að hefði verið rjettara en að kalla þingið saman að næturþeli og hleypa svo öllum bænum, og jafnvel öllu landinu, í uppnám og ótta. En úr því að þessi tillaga er komin fram opinberlega, erum við neyddir til að samþykkja hana, því að þingið getur með engu móti staðið sig við að fella hana, þar sem það væri sama og að banna stjórninni að gjöra þær ráðstafanir, sem þar er farið fram á.